150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

tollalög o.fl.

245. mál
[17:47]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ræðuna í þessu máli sem er margt gott í. Ég er mjög glaður með að komið verði á laggirnar stofnun sem er líkleg til að efla skattheimtu, bæta hana, einfalda ferilinn, t.d. þegar vanskil eiga sér stað, og auka möguleika manna til þess að geta innheimt þau en ég verð að viðurkenna að ég er svolítið skeptískur á þann hluta tollgæslu sem lýtur að tollgæslu á landamærum. Þá er ég að tala um fýsíska tollgæslu sem í raun og veru hefur verið í fjársvelti líklega í 10–15 ár. Ég hef áhyggjur af því að 22. október sé mælt fyrir frumvarpi sem á að gera að lögum fyrir næstu áramót, eftir 70 daga. Á þeim tíma á sem sagt að fjalla um frumvarpið, senda það til nefndar, fjalla um það þar, samþykkja það hér, það á að breyta starfsskilyrðum, eða alla vega starfsumhverfi, fjölda manns á 70 dögum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að tvennu. Það segir hér að með því skapist tækifæri til að efla starfsemi tollyfirvalda á landsbyggðinni. Ég spyr þá: Hvernig helst? Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra: Veldur það honum ekki áhyggjum að stór hluti þeirra starfsmanna sem á að starfa samkvæmt þessum nýju lögum, ef samþykkt verða, lýsir miklum efasemdum og virðist vera mjög á móti frumvarpinu eins og það lítur út núna?