150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

tollalög o.fl.

245. mál
[18:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta mál um fyrirkomulag tollafgreiðslu og tollgæslu, eins og hér stendur, sem er í rauninni samruni tollgæslunnar og ríkisskattstjóra undir þessu nýja heiti, Skatturinn. Mér líst í sjálfu sér ágætlega á þau áform í ljósi alls þess sem nefnt er í frumvarpinu og er undir, alla þessa samlegð sem við sem nýtum okkur þjónustu skatt- og tollstjóra verðum helst vör við. Mér finnst það vera inntakið í þessu frumvarpi. Í ljósi fjórðu iðnbyltingarinnar, allra breytinganna, sjálfvirknivæðingar og annars sem við stöndum frammi fyrir og fram undan er held ég að það geti verið af hinu góða. Mér finnst gott að það liggur fyrir strax í upphafi að tollurinn eigi að hafa sérstöðu innan embættis ríkisskattstjóra. Það er ekki þannig að sá hluti starfsins hverfi og verði uppétinn af ríkisskattstjóra heldur á líka að gera honum hátt undir höfði. Eins og ráðherra fór ágætlega yfir er ýmislegt sem má segja að sé sammerkt með þeim og sameiginlegt sem nýtist embættinu, hvort sem það eru upplýsingar úr þessum kerfum eða samnýting gagna sem þar er að finna, en ég sé fyrst og fremst fyrir mér að það nýtist líka þjónustuþegum, okkur sem þurfum að eiga þessi samskipti.

Í greinargerð frumvarpsins er talað um aukna möguleika á sjálfsafgreiðslu og styrkari tekjuöflun ríkissjóðs. Mér finnst hvort tveggja jákvætt. Það er samt ekki bara talað um eflingu mannauðs, betri samhæfingu, betri tækni og allt það heldur líka dreifða þjónustustýringu. Mér finnst það afar mikilvægt. Eitt af því sem ríkisstjórnin ætlar að leggja áherslu á er að dreifa opinberum störfum um landið. Það er hluti af rökum fyrir þessari breytingu og ég held að að nefndin þurfi svolítið að kalla eftir því að fá á hreint hvernig menn sjá það fyrir sér. Sameining embætta á sínum tíma sem varð til þess að úr varð einn skattstjóri tókst afskaplega vel og er líklega ein best heppnaða sameiningin sem hið opinbera hefur farið í. Þó að nýr skattstjóri sé tekinn við vænti ég þess að til sé innanbúðarþekking á því sem gert var á þeim tíma og varð til þess að sú aðgerð heppnaðist vel.

Ég get tekið undir áhyggjur hv. þingmanns sem talaði á undan mér um hinn skamma tíma sem hér er undir til að lenda málinu, sérstaklega í ljósi andstöðu tollaranna. Það er kominn hnútur áður en farið er af stað og það er aldrei gott. Ég vænti þess þó að fundinn verði flötur á því hvernig hægt er að fara í það. Eins og hér kemur fram þarf að fara í gegnum ansi mikið og endurskoða margt sem snýr að þessari vinnu. Ef við samþykkjum þetta mál jafnvel ekki fyrr en í desember verður að hafa í huga að þegar við erum að sameina stofnanir eða gera stórar breytingar er eiginlega alltaf best að þær taki gildi um áramót. Það er alltaf heppilegast og ég get tekið undir að tíminn til stefnu er skammur.

Síðasti ræðumaður talaði um að hérna sé margt sem vissulega ætti heima með löggæslunni eins og drepið er á í greinargerð með frumvarpinu. Því má velta fyrir sér, og væntanlega verður það rætt í nefndinni, hvernig bæði ráðuneytin sem að þessu koma, dómsmálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti, sjái þessa snertifleti fyrir sér. Ég vænti þess að það séu tækifæri til að bæta landamæragæsluna sem hér hefur verið töluvert rædd. Um leið og ég segi að hægt sé að færa út störfin varpa ég því hér fram að ég held að við förum t.d. ekki vel með fé þegar kemur að tollgæslunni að mörgu leyti núna. Ef ég horfi á landamæragáttina sem er fyrir austan held ég að við verðum að gera breytingu þar. Hér var talað um gríðarlegan innflutning fíkniefna. Það er búið að taka rosalegt magn á þessu ári sem kemur með Norrænu. Það er ekki skynsamlegt þar sem Norræna kemur einu sinni í viku, bara sú ferja fyrir utan aðrar sem koma, að við séum alltaf að selflytja fólk af höfuðborgarsvæðinu austur, jafnvel með hunda. Þetta er ekki eini staðurinn þangað sem önnur skemmtiferðaskip koma en þarna erum við klárlega með siglingar allan ársins hring og smyglið þarna í gegn hefur verið gríðarlegt og færst í aukana. Ég held að við þurfum að hugsa það upp á nýtt að senda fólk af höfuðborgarsvæðinu austur til að vera með hund og á dagpeningum og þetta tekur í sjálfu sér alla jafna ekki mjög langan tíma.

Ég vona að það verði eitt af því sem felst í sameiningunni, bæði að færa út störf en líka að efla þá gæslu sem hér er svolítið verið að tala um, snertifletina á milli. Ég held að það skipti mjög miklu máli. Hér er líka talað um samfélagslegt hagræði og fjárhagslegan ávinning og að þetta eigi að rúmast innan fjárheimilda. Ég tel að við getum gert enn betur með því að hugsa þetta upp á nýtt. Ég vona sannarlega að ráðherrann og embættismenn hans sem munu koma fyrir nefndina velti þessu fyrir sér. Ég veit ekki hvort það eru til upplýsingar um hversu mikill kostnaðurinn sé í raun af því að halda úti starfsmönnum. Við höfum t.d. dregið saman í löggæslunni fyrir austan, það er búið að minnka starfshlutfall og loka afgreiðslu. Það er engin lögreglustöð á Seyðisfirði. Þetta er mjög sérstakt ástand þar sem við erum með galopna gátt inn í landið og eðli málsins samkvæmt reyna menn að nýta sér þá smyglleið. Ég hvet nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd sérstaklega til að skoða þetta en ég hvet líka ráðherra til að velta því fyrir sér og fá sína embættismenn til að skoða hvort betur sé farið með peninga með því að hafa fólk á staðnum en ekki vera sífellt að ferja það fram og til baka. Það er ekki eins og viðkomandi myndi sinna bara Seyðisfirði heldur eru fleiri gáttir fyrir austan.

Ég þarf ekkert að ræða þetta mál mikið. Ég er sammála þeirri nálgun að hér séu miklir snertifletir. Samþykkt málsins ætti að þýða töluvert betri þjónustu, sérstaklega fyrir fólk sem verslar mikið í gegnum netið. Eins og hér er sagt verða alþjóðlegar áskoranir í rafrænni verslun sífellt fyrirferðarmeiri. Varðandi þessi almennu samskipti við tollyfirvöld og um leið að skatturinn hafi tök á því að fylgjast betur með dreg ég ekki í efa að sá ávinningur gæti orðið mjög góður. Ég ítreka að ég tek undir það sem hér stendur, það þarf að vanda sameininguna og í ljósi þess hve naumur tíminn er getur þurft að horfa til þess í nefndinni hvort það þurfi rýmri tíma. Að öðru leyti er ég ánægð með málið og treysti því að því fylgi dreifð störf.