150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

íslenskur ríkisborgararéttur.

252. mál
[18:47]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir yfirferðina. Nokkrar spurningar kvikna við lestur frumvarpsins. Margt er þar gott, til að taka það fram fyrst. Það er fínt að uppfæra tölur varðandi sektarfjárhæðir til nútímans og er það mjög jákvætt og ýmislegt annað er jákvætt. En það eru samt nokkrar spurningar sem ég velti fyrir mér. Það er t.d. orð sem hefur slæðst inn í b-lið 1. gr. sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Heimilt er að víkja frá þessum skilyrðum hafi dvöl umsækjanda hér á landi verið rofin allt að einu ári samtals á þeim tíma sem hann verður að uppfylla.“

Það er orðið „samtals“ sem ég hnýt um vegna þess að þarna er verið að leggja saman allan þann mögulega tíma sem umsækjandi hefur verið erlendis. Þá veltir maður t.d. fyrir sér þeim sérfræðingum sem hér á landi starfa en starfa einnig hjá dótturfélögum eða eru hjá fyrirtækjum erlendis vegna starfa sinna. Þetta getur leitt til þess að sérfræðingar eigi ekki möguleika á að fá hér ríkisborgararétt vegna þessa eina orðs sem nú er búið að bæta við lögin. Ég velti því fyrir mér hvort ráðherra geti svarað því hvers vegna þetta er komið inn eða hvort um er að ræða mistök sem þarf þá að laga í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.