150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

íslenskur ríkisborgararéttur.

252. mál
[18:54]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil ítreka að það er ýmislegt sem er betra í þessu frumvarpi en því sem kynnt var á samráðsgátt ríkisstjórnarinnar síðasta vetur, sér í lagi það að ekki á að taka veitingu ríkisborgararéttar alfarið úr höndum Alþingis heldur halda þeim þætti inni. Sitt sýnist hverjum varðandi það fyrirkomulag, enda hefur það oft og tíðum borið merki geðþóttaákvarðana, eins og við höfum oft orðið vitni að þegar stjórnmálamenn eða jafnvel ráðherrar fá einhverja einstaklinga svona inn í hjartað og vilja gjarnan greiða leið viðkomandi þrátt fyrir að viðkomandi uppfylli engin skilyrði, á sama tíma og aðrir sem eru jafnvel minna þekktir einstaklingar fá ekki sömu þjónustu hér. Það er helst það sem maður veltir fyrir sér af hverju ætti að vera áfram. En ég tel engu að síður þennan varnagla verða að vera vegna þess að lögin eru skýr þegar kemur að veitingu ríkisborgararéttar með stjórnvaldsákvörðun og framkvæmd laganna hefur verið þannig að engar undanþágur hafa verið veittar hjá stjórnvöldum. Sé vilji löggjafans hins vegar til að veita einhverjar undanþágur er vert að skoða hvort veita eigi frekari undanþágur og færa það alfarið til stjórnvalda til að meta hverju sinni.

Eins og áður sagði er ýmislegt jákvætt í þessu, t.d. það að hverfa frá þeirri breytingu sem kynnt hafði verið síðasta vetur, en líka það sem fram kemur í 3. gr. frumvarpsins um að hækka sektarfjárhæðir sem horft er til, til samræmis við sektarfjárhæðir sem eru í nútímanum. Fyrst krónutölur eru í lögunum er nauðsynlegt að þær uppfærist eins og gengur og gerist.

Það eru nokkur atriði sem vekja athygli hér í 1. umr., t.d. í 2. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Umsækjandi hafi sannað með fullnægjandi hætti hver hann sé. Komi í ljós að umsækjandi hafi dvalist hér á landi á grundvelli skilríkja sem reynast ekki hans eða upplýsinga sem reynast ekki réttar reiknast sá dvalartími ekki sem búseta samkvæmt 8. gr.“

Þá er verið að tala um þann tíma sem viðkomandi tiltekur að hann uppfylli skilyrði um til veitingar ríkisborgararéttar. Maður veltir fyrir sér af hverju verið er að bæta þessu inn í lögin. Komi í ljós, eftir veitingu dvalarleyfis, að einstaklingur hefur fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli falsaðra skilríkja er það auðvitað saknæmt og viðkomandi hefur gerst brotlegur við hegningarlög og kann að vera sviptur sínu dvalarleyfi og vísað á brott frá landinu. Sömuleiðis ætti slíkur dómur, samkvæmt 3. gr. frumvarpsins eða 9. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt, að koma niður á möguleikum viðkomandi til að fá íslenskan ríkisborgararétt. Fái hann skilorðsbundinn dóm á hann ekki möguleika á að fá ríkisborgararétt fyrr en að liðnum þremur árum frá því að skilorðstími er liðinn. Fái viðkomandi fangelsisdóm, segjum allt að sex mánuðum, fyrir að nota röng skilríki til að fá hér einhvers konar réttindi, þá líða átta ár frá því að refsing var afplánuð eða frá veitingu reynslulausnar þar til hann getur sótt um ríkisborgararétt í fyrsta lagi. Ég tel því að umrætt ákvæði sé hálfgerður bastarður í þessum lögum og sé ekki alveg til hvers það er.

Ég verð að hrósa höfundi frumvarpsins fyrir að fella niður 2. tölulið 9. gr., en hann snerist um það að fá tvo málsmetandi aðila til að staðfesta að viðkomandi væri nú sérlega viðkunnanlegur borgari enda máttu þau gögn sín lítils, og það kemur fram í frumvarpinu, í því gagnaflóði sem þarf að skila inn í þessu ferli. Maður veit svo sem ekki hvað stjórnvöld gerðu við þann pappír, að fá að heyra að einhver væri sérlega viðkunnanlegur og ætti endilega að fá ríkisborgararétt. Þetta er pínulítið í anda þess þegar málsmetandi fólk var að veita umsækjendum um uppreist æru blessun sína og er eins gott að það falli burt.

Þá vekur líka athygli nýtt ákvæði sem á að koma á eftir 6. tölulið í 9. gr., um að sá sem talinn er ógna mikilvægum þjóðarhagsmunum, öryggi ríkisins eða utanríkisstefnu þess eigi ekki rétt á íslenskum ríkisborgararétti. Maður veltir fyrir sér hvernig þetta verður metið. Á bls. 10 í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um þetta og sagt að um sé að ræða ákveðinn varnagla ef sérstakar ástæður eru taldar mæla gegn veitingu ríkisborgararéttar þrátt fyrir að umsækjandi uppfylli jafnvel öll almenn skilyrði laga fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Maður veltir fyrir sér hvaðan þetta kemur inn í frumvarpið og hver meti að einhver teljist ógna utanríkisstefnu eða hvað það er í fari einstaklingsins sem verði metið sem slíkt. Sagt er að Útlendingastofnun eða eftir atvikum ráðuneyti sem kærustjórnvald setji málið í þann farveg að aflað sé álits utanríkisráðuneytis áður en ákvörðun er tekin um veitingu ríkisborgararéttar. Það verður fróðlegt að heyra frá þeim gestum sem væntanlega verða kallaðir fyrir nefndina til að kynna þetta frumvarp frekar hvað bjó að baki því að þetta ákvæði ratar inn í frumvarpið og á að verða að lögum því það kom ekki fram í ræðu hæstv. ráðherra.

Ég hef áður nefnt, og sagði það í andsvari, tímann þegar kemur að mökum, þegar umsækjandi er maki Íslendings sem dvelur erlendis. Þá má viðkomandi vera erlendis í einhvern smátíma en hins vegar er í raun ekkert tekið á því sem þó er núna heimilt í íslenskum lögum að hjón skrái lögheimili hvort á sínum stað. Þeir sem eru erlendir borgarar og ætla að sækja hér um ríkisborgararétt njóta ekki sömu réttinda og önnur hjón þegar kemur að því að skrá lögheimili hvort á sínum stað. Þá er spurning hvort ekki þurfi að gefa út sérstakar leiðbeiningar um leið og fólk sækir um dvalarleyfi og fær afhent dvalarleyfi. Íslensk stjórnvöld sinni þeirri leiðbeiningarskyldu sinni að afhenda þegar í stað, um leið og dvalarleyfisskírteini er afhent, upplýsingar um að þeir einstaklingar njóti ekki sömu réttinda og önnur hjón á Íslandi hvað varðar heimild til að skrá lögheimili hvort á sínum stað vegna þess að það muni koma í veg fyrir að viðkomandi geti síðar sótt um íslenskan ríkisborgararétt. Ég held að það sé algjört grundvallaratriði að stjórnvöld sinni þeirri upplýsingaskyldu vegna þess að um mjög mikla skerðingu á réttindum til framtíðar getur verið að ræða. Ég held að við þurfum að tryggja það og setja í lög til að stjórnvöld sinni þeirri skyldu.

Ég held að ég láti þetta gott heita. Ég ætla ekki að fara yfir þá punkta sem ég skrifa „gott“ í, ég er búin að segja að það er ýmislegt gott í frumvarpinu og hef þetta ekki lengra.