150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Nýlega skilaði undirnefnd fjárlaganefndar minnisblaði til nefndarinnar um viðbótarsamkomulag vegna kirkjujarðasamkomulagsins. Helsta álitamálið í samkomulaginu er uppgjör þeirrar tilfærslu á eignum sem átti sér stað árið 1907 og voru gerðar upp í samkomulaginu árið 1997 um hvaða eignir væri um að ræða og hver væri endanlegur kostnaður þess uppgjörs fyrir ríkið.

Önnur spurning er hvert sé framlag ríkisins vegna 62. gr. stjórnarskrárinnar um að styðja og vernda þjóðkirkjuna. Miðað við þá samninga sem eru í gangi verður að gera ráð fyrir því að kirkjujarðasamkomulagið innihaldi uppgjör vegna bæði eignatilfærslunnar og styrks vegna 62. gr. Það sem vantar í samkomulagið er sundurliðun á þessu tvennu.

Í álitsgerðum kirkjueignanefndar frá 1984 og 1992 er ítarlega fjallað um þróun á jarðeignum kirkjunnar og lista af jörðum sem eru taldar í eigu kirkjunnar á þeim tíma þegar skýrslunni var skilað. Því verður að líta svo á að kirkjujarðasamkomulagið hafi snúist um afhendingu þeirra eigna. Andvirði þeirra jarða á þeim tíma var rúmur 1 milljarður kr. Það er því augljóst að um endanleg gæði var að ræða þegar kirkjujarðasamkomulagið var gert og augljóst að heildaruppgjör á þeirri eignaafhendingu er mögulegt. Svo virðist hins vegar sem enginn hafi haldið sérstaklega utan um slíkt uppgjör þó að ætla mætti að bæði ráðuneyti og Ríkisendurskoðun hafi átt að sinna því verkefni.

Við búum nú við nýtt lagaumhverfi í opinberum fjármálum og eðlilegt væri að horfa til þeirra laga í nýjum samningi. Í þeim lögum kemur fram að ekki sé heimild nema innan strangra skilyrða til að gera samninga til lengri tíma en fimm ára. Skilyrði fyrir lengri samningi virðast ekki vera til staðar og því er skrýtið að endurskoðun skuli vera upp á 15 ár. Það stenst varla lögin.

Að lokum vantar að skilgreina umfang og gæði þeirrar starfsemi sem samningurinn tekur til, hvaða skilyrði fylgi greiðslum og eftirlit með þeim skilyrðum. Það er að mörgu að huga í þeim málum. Þetta snýst um uppgjör á stærstu eignatilfærslu Íslandssögunnar ef samkomulagið er til eilífðar. Það stenst hins vegar enga skoðun og því er skylda okkar að standa vörð um að vel sé farið með skattfé almennings.