150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Heilbrigðismálin eru gríðarlega oft rædd í þinginu. Ég var á fundi í fjárlaganefnd í morgun og það er einfaldlega þannig að maður upplifir að maður sé alltaf á sama fundinum ár eftir ár. Ég tók sæti á þingi árið 2009 og alltaf er rætt mjög mikið um heilbrigðismálin. Það er alltaf rætt um að meira fjármagn vanti inn á Landspítalann og alltaf er rætt um hjúkrunarheimilin sérstaklega. Við höfum bætt við gríðarlega miklum fjármunum til Landspítalans og ég held að það hljóti að þurfa að skoða með hvaða hætti stjórnun fer fram á þeirri góðu stofnun vegna þess að lausnin er greinilega ekki sú að auka við fjárveitingar.

Varðandi hjúkrunarheimilin er góð vinna í gangi í heilbrigðisráðuneytinu. Engu að síður erum við í þeirri stöðu enn þann dag í dag að á spítala eru einstaklingar sem eiga að vera útskrifaðir og eiga að komast inn á hjúkrunarheimili en eru enn í þeirri stöðu að komast ekki. Það eykur kostnað í kerfinu. Verið er að byggja og það mun taka einhvern tíma, en ég tel að við munum áfram heyra þessar raddir þrátt fyrir að það átak verði komið í framkvæmd. Ég hvet þingmenn til að reyna að horfa á þennan málaflokk í nýju ljósi og velta við öllum steinum um hvernig við getum gert hlutina betur.

Heilbrigðismálin eru stærstu málin í hverju héraði. Mig langar að vekja athygli þingheims á góðri grein sem ég las í morgun um stöðu sjúkraflugs eftir bæjarfulltrúana ágætu Hafdísi Gunnarsdóttur, formann bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, og Hildi Sólveigu Sigurðardóttur, sem er bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, þar sem þær lýsa yfir áhyggjum af sjúkraflugi og stöðu þessara tveggja landsvæða gagnvart því og áhyggjum af því að viðbragðstími sé of langur. Þetta mál þurfum við að taka til skoðunar.