150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil ræða opinber störf á landsbyggðinni, ekki bara flutning starfa þangað heldur einnig hvar ný störf verða til og hvernig umgjörð er sköpuð um starfsemina. Benda má á vel heppnaðan flutning stofnana á landsbyggðina; Byggðastofnun, Íbúðalánasjóð, Landmælingar, hluta Vinnumálastofnunar, Fæðingarorlofssjóð o.fl. En hvernig má það þá vera að flest störf án staðsetningar enda á höfuðborgarsvæðinu og að flutningur þeirra er mestmegnis í sömu átt, af landsbyggðinni? Hvernig má það vera að ný Menntamálastofnun var sett í heilu lagi niður á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að hún sinni öllu landinu, ekki síst sveitarfélögunum? Nánast öll ný verkefni og opinber störf enda á sama stað. Aukinheldur vinna miðlægar stórar stofnanir markvisst að því, oft með dyggum stuðningi embættismanna í viðkomandi ráðuneytum, að draga til sín störf og verkefni af landsbyggðinni, sérstaklega ef þeim fylgja tekjur. Ég nefni Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun, dómstólana, Þjóðskrá og ekki síst Umhverfisstofnun sem sækir í verkefni heilbrigðiseftirlita sem sveitarfélögin reka í samstarfi úti um landið. Þessar stofnanir skrifa sig inn í lög og reglugerðir í krafti stöðu sinnar sem ráðgjafar og nábýlingar ráðuneytanna sem um véla, sækja sér þannig gömul og ný verkefni sem til verða.

Hér geta sveitarfélögin vissulega einnig sýnt gott fordæmi sem og Samband íslenskra sveitarfélaga en starfsemi þess fer fram í Reykjavík. Ég tel gott fyrsta skref að flytja Lánasjóð sveitarfélaga út á land, sem hæfir vel þeirri starfsemi sem hann sinnir.

Við þurfum að sameinast um að víkja af þessari vegferð og að opinbert starf á landsbyggðinni verði ekki áfangi á vegferð fólks í gegnum lífið og starfsferilinn heldur áfangastaður. Vil ég benda á umfangsmikinn flutning opinberra starfa á landsbyggðina í Danmörku sem virðist hafa heppnast gríðarlega vel.

Hér er verk að vinna og mikilvægt að stjórnvöld eigi frumkvæðið og beiti sér í gegnum embættismenn og stofnanir fyrir því að fjölga verkefnum og opinberum störfum á landsbyggðinni.