150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég ætla að fjalla um samkeppnishæfni og íslenska raforkuframleiðslu. Í síðustu viku sótti ég góðan fund Samtaka iðnaðarins þar sem kynnt var skýrsla á vegum samtakanna, Íslensk raforka – ávinningur og samkeppnishæfni. Mörg mjög góð erindi voru flutt á fundinum og góðar pallborðsumræður voru í lokin. Ég er einn þeirra þingmanna sem sitja ásamt sérfræðingum í starfshópi sem vinnur að því að móta orkustefnu til næstu 20–30 ára. Þar er um að ræða ákaflega mikilvæga vinnu og það kom skýrt fram á fundinum í síðustu viku í erindum og pallborðsumræðum að mikið er horft til hennar. Vonandi tekst í fyrsta skipti að móta góða framtíðarsýn til lengri tíma í þeim lykilmálaflokki sem orkumálin eru.

Í skýrslu Samtaka iðnaðarins kemur m.a. fram að fjórðungur útflutningstekna þjóðarinnar byggir á framleiðslu og nýtingu á raforku. Raforkuframleiðsla á hvern landsmann er hvergi meiri á jarðríki en á Íslandi og munar miklu þegar litið er til næstu landa.

Hér er þó rétt að setja þetta í stærra samhengi, eins og gert er í skýrslu Samtaka iðnaðarins. Þar er bent á að framleiðsla úr endurnýjanlegum orkugjöfum er 20 teravattstundir eða 0,4% af framleiddri orku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum sem telur í heild 5.000 teravattstundir á heimsvísu. Hér er ég að ræða um grunninn að samfélagi okkar, orkuframleiðslu og nýtingu hennar sem er ein helsta grunnstoðin undir íslensku samfélagi. Við ættum að ræða orkumálin meira og oftar í þingsal. Samkeppnishæft raforkuverð er lykilatriði fyrir samkeppnishæfni landsins til lengri framtíðar og það á bæði við um atvinnulífið og heimilin í landinu.