150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Í vetur og undanfarin misseri hef ég verið svo lánsamur að fá að starfa í þingmannanefnd um málefni barna sem er stýrt af hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur. Nefndin nýtur stuðnings ráðuneytis félags- og barnamála, sem er ljómandi gott. En því er ég að nefna þetta? Jú, það er nefnilega þannig að nýlega fékk Kópavogsbær, í samvinnu við þetta sama ráðuneyti, alþjóðleg verðlaun fyrir verkefni sitt um nokkurs konar mælaborð fyrir velferð barna í því sem við myndum kalla vestrænum allsnægtarsamfélögum. Þau mælaborð sem alþjóðastofnanir hafa oftast notast við í að meta það hvernig börn hafa það raunverulega í samfélögum nýtast miklu verr í samfélögum eins og okkar þar sem grunnpunkturinn er mun hærri en í mörgum öðrum samfélögum. Það er því mjög mikilvægt að svona verkefni séu sett af stað og ástæða er til að hrósa Kópavogsbæ sérstaklega og starfsfólki hans fyrir að hafa fundið upp á þessu. Þetta er tæki sem mun nýtast alls staðar á Íslandi og þess vegna víðar í heiminum til að meta þá raunverulegu stöðu sem börn eru í. Þá erum við að horfa til þátta sem eru miklu meira á dýptina en það t.d. hvort börn hafi aðgang að bólusetningum eða hreinu vatni, sem er það sem mörg önnur samfélög í heiminum eru mest að skoða. Við erum sem betur fer komin lengra, en við þurfum samt að vera með gagnleg tæki í höndunum sem geta metið það hvernig börnunum okkar líður.