150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

matvæli.

229. mál
[16:16]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli. Það vill svo til að ég er meðflutningsmaður á þessu frumvarpi og í því er gert ráð fyrir að fyrirtæki sem hafa með höndum smásölu matvæla skuli tryggja með merkingum í sölurýmum að neytendur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um upprunaland matvælanna og meðalnotkun sýklalyfja við framleiðslu matvæla í viðkomandi landi, þ.e. þetta frumvarp er hugsað til þess að leitast við að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Það er tilgangurinn.

Herra forseti. Eitt mesta afrek læknavísindanna var uppgötvun sýklalyfja í upphafi 20. aldarinnar. Alexander Fleming uppgötvaði penisillín árið 1928 og það gjörbreytti lífi fólks, fyrst í stað í hernaði en síðan um gjörvallan heim. Það er auðvelt að gera sér í hugarlund, herra forseti, þá breytingu frá því að minnsta skeina sem ígerð gat hlaupið í gat leitt til dauða og til þess að allflestar sýkingar og margir alþekktir, landlægir og oft banvænir sjúkdómar urðu á skömmum tíma rétt fyrir miðbik síðustu aldar læknanlegir. Framleiðsla annarra sýklalyfja næstu áratugi kveikti von um að hægt væri að lækna og jafnvel útrýma mörgum af hættulegustu sjúkdómum heims. Hins vegar leið ekki langur tími frá því að notkun sýklalyfja hófst þar til stofnar ónæmra baktería komu fram. Nú er svo komið að sumar tegundir baktería eru ónæmar fyrir nánast öllum gerðum sýklalyfja. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur skilgreint sýklalyfjaónæmi sem eina af stærstu heilbrigðisógnum heimsins. Aukið ónæmi fyrir sýklalyfjum veldur vandamálum við meðferð sýkinga og hefur þar af leiðandi slæmar afleiðingar fyrir heilsu manna og veldur auknum kostnaði við heilbrigðisþjónustu. Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins áætlar að í Evrópu einni komi upp u.þ.b. 400.000 sýkingar á ári hverju af völdum ónæmra sýkla sem leiða til 25.000 dauðsfalla árlega. Með auknum ferðalögum og viðskiptum með matvæli og dýraafurðir heimshorna á milli opnast leiðir fyrir sýklalyfjaónæmar bakteríur til að dreifa sér.

Sýklalyfjaónæmi er því alþjóðlegt vandamál. Sýklalyfjanotkun er áhrifamesti þátturinn í þróun og dreifingu sýklalyfjaónæmis þótt sambandið geti verið flókið. Röng og/eða of mikil notkun sýklalyfja eykur hættu á að sýklalyfjaónæmar bakteríur komi fram og breiðist út. Forsenda markvissra aðgerða gegn óskynsamlegri sýklalyfjanotkun er að hafa góðar og áreiðanlegar upplýsingar um notkun sýklalyfja og þróun ónæmis gegn þeim. Hér hafa heilbrigðisstéttir verið hvattar til þess að sýklalyf séu notuð af ábyrgð. Einnig er lögð áhersla á sýkingavarnir á heilbrigðisstofnunum og fylgst er með tíðni sýkinga sem tengjast heilbrigðisþjónustunni.

Herra forseti. Sýklalyfjaónæmi er það þegar baktería verður ónæm fyrir áhrifum sýklalyfs sem áður verkaði gegn henni. Þá verður mun erfiðara að meðhöndla sýkinguna og oft þarf þá að grípa til dýrari lyfja eða lyfja sem hafa víðtækar eiturverkanir. Þær bakteríur sem eru komnar með vörn fyrir mörgum gerðum af sýklalyfjum kallast fjölónæmar bakteríur. Sýklalyfjaónæmi getur komið fram vegna nokkurra þátta, náttúrulegra varna bakteríunnar, nýrrar stökkbreytingar eða þess að bakterían tekur upp ný gen frá annarri bakteríu. Baktería er lengi útsett fyrir sýklalyfi. Ná þær bakteríur sem hafa varnir frekar að lifa af og þetta kallast, herra forseti, náttúruval í heimi baktería. Til að koma í veg fyrir sýklalyfjaónæmi er því reynt að koma í veg fyrir ranga eða of mikla notkun sýklalyfja í heilbrigðisþjónustu og í landbúnaði og með því að stöðva afrennsli af lyfjaframleiðslu út í náttúruna. Misstrangt regluverk er um notkun sýklalyfja eftir löndum. Innan Evrópusambandsins er t.d. notkun sýklalyfja í landbúnaði takmörkuð. Mælt er gegn því að nota svokallaðar gamlar sýklalyfjategundir nema nauðsyn krefji. Á Íslandi er notað hlutfallslega mest af sýklalyfjum á öllum Norðurlöndunum. Heildarnotkunin er samt minni en meðaltalsnotkun í Evrópu. Á árinu 2017 jókst heildarnotkun sýklalyfja í mönnum á Íslandi um 3% miðað við undanfarin ár. Algengi salmonellu- og kampýlóbaktersýkinga er tiltölulega lágt á Íslandi miðað við önnur lönd en þar er sýklalyfjaónæmi hjá þessum sýklum þar sem það er meira. Slíkir sýklar finnast sjaldan í kjúklingum og svínum á Íslandi eða í færri en 10% af dýrum. Sóttvarnalæknir varar þó við að íslenskur landbúnaður geti verið uppspretta sýklalyfjaónæmra baktería.

Herra forseti. Ég ber þá von í brjósti að þetta frumvarp fari nú til nefndar og fái þar vandaða umfjöllun þar sem rætt verði við sérfræðinga á þessu sviði og að við reynum allt hvað við getum til að koma í veg fyrir eftir bestu getu að sýklalyfjaónæmar bakteríur breiðist út eins og raunin er víða í nágrannalöndunum. Til þess þurfum við að beita öllum tiltækum ráðum.