150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

merkingar um kolefnisspor matvæla.

204. mál
[16:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um tillögu til þingsályktunar um merkingar um kolefnisspor matvæla. Ég styð hana heils hugar og þakka hv. flutningsmanni hennar, Margréti Tryggvadóttur, fyrir að leggja hana fram og Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að flytja hana hér. Það er svolítið undarlegt í sjálfu sér hvernig við högum okkur í innflutningi á matvælum og hversu ótrúlega langa vegalengd við flytjum matvæli, jafnvel matvæli sem við getum framleitt hér sjálf. Annað sem fylgir líka þessum gígantísku flutningum yfir hálfan hnöttinn eða lengra jafnvel er hvernig gengið er frá þessum matvælum. Þau eru í plastöskjum og jafnvel plastað utan um plastöskjurnar. Það er ótrúleg plastnotkun sem fylgir oft matvælunum. Við eigum að passa okkur og okkur ber skylda til að hafa þetta skýrt merkt. Almenningur ætti að geta fylgst með því hversu ótrúlegt kolefnisspor fylgir matvælum á löngu ferðalagi til Íslands. Ég tek sem dæmi jarðarber sem við flytjum langar leiðir. Við getum ræktað þau sjálf og þess vegna segi ég að það er með ólíkindum að við skulum ekki hafa stóreflt gróðurhúsaræktun og komið henni á það stig að hún geti orðið samkeppnishæf við Evrópu. Það segir sig sjálft að ef Hollendingar geta ræktað eins og þeir gera ættum við að geta það með hreina vatninu okkar og raforkunni. Í þeim tilfellum verða hins vegar garðyrkjubændur og aðrir að fá orkuna á hagstæðu verði. Ég hef heyrt að þeir myndu fagna því ef þeir fengju orkuna á svipuðu verði og stórmengandi álver eða kísilver eða aðrir stórframleiðendur. Við eigum að sjá til þess að þessir aðilar fái orkuna á því verði til að auka ræktun. Okkur ber skylda til þess.

Það er líka annað sem við gleymum og erum komin svolítið langt frá. Þegar ég ólst upp var faðir minn með kartöflugarð í Árbænum. Þá þótti sjálfsagt að fólk gæti ræktað kál, rófur, kartöflur og alls konar matvöru. Í dag er það ekki sjálfsagt. Það er búið að þrengja gífurlega að því. Það er eiginlega orðið í undantekningartilfellum sem börn fá smáaðstöðu til að rækta. Þessi lífsnauðsynlega ræktun, sem myndi spara gífurlega innflutning á matvælum og draga úr kolefnisspori, er eiginlega að deyja út. Landið í höfuðborginni og annars staðar virðist vera orðið það dýrt að ekki virðist hægt að skilja eftir blett til að rækta á.

Ég styð málið heils hugar og okkur ber skylda til að skrá á allar umbúðir hversu mikið kolefnisspor og hversu mikil mengun fylgir viðkomandi vöru. Það er ekki bara kolefnissporið sem er þar undir heldur líka plastnotkun. Ég skil það engan veginn og er gjörsamlega orðlaus yfir því að verið sé að flytja erlent vatn í plastflöskum til Íslands eins og við höfum orðið vör við. Það er gjörsamlega óskiljanlegt. Í fyrsta lagi er undarlegt að einhverjum skuli detta það í hug og í öðru lagi að vatnið skuli seljast grimmt. Það er eiginlega stórfurðulegt og ég held að við ættum að spyrja hvernig í ósköpunum standi á því að slíkir hlutir viðgangist.