150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

grænn samfélagssáttmáli.

31. mál
[17:22]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem svolítið seint inn í þessa umræðu en ég náði þó að hlusta á hv. þm. Loga Einarsson. Það kann að vera búið að ræða eitthvað um þetta áður en ég tek eftir 3. tölulið þessarar tillögu til þingsályktunar og ég reyni að skilja hann. Greinargerðin hjálpar mér ekki neitt. Töluliðurinn hljóðar svona, hæstv. forseti:

„Teknir verði upp nýir mælikvarðar á velsæld í hagkerfinu, með hliðsjón af þörfinni á velmegun án vaxtar …“

Ég skil ekkert hvað þessi setning merkir. Ég velti fyrir mér: Eigum við að nota annan mælikvarða á velferð en barnadauða eða minni vinnutíma, aukinn styrk heilbrigðiskerfis, almannatryggingar o.s.frv.? Eða hverjir eiga nýju mælikvarðarnir að vera? Mér er það algerlega óskiljanlegt. Mín tilfinning er sú að verið sé að búa til ný orð yfir gamla sósíalismann. (Gripið fram í: Jess.) Það finnst mér nærtækast við að reyna að skilja þetta. En ég myndi gjarnan vilja að hv. þingmaður útskýrði fyrir mér hverjir hinu nýju mælakvarðar eigi að vera og hvernig menn ætli að mæla þörfina á velmegun án vaxtar.