150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

grænn samfélagssáttmáli.

31. mál
[17:28]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru nokkuð óvænt ummæli úr munni þingmanns sem boðaði bara fyrir tveimur vikum samstarf við Helgu Völu Helgadóttur, hv. þingmann Samfylkingarinnar. Meiri verðmæti, meiri framleiðsla — hún verður hins vegar að vera drifin áfram á öðrum þáttum en hingað til. Loftgæði hafa t.d. ekki verið skilgreind sem sérstakt markmið í framleiðsluhagkerfi okkar fyrr en síðustu ár. Núna mun það vera algjörlega nauðsynlegt. Það mun líka lengja líf fólks, meira að segja okkar tveggja, kannski talsvert. (BN: Er það æskilegt?) Það er ég ekki svo viss um, hv. þingmaður, en annarra, a.m.k. hinna 7 milljarðanna. Ég held að þetta sé ekki spurning um frasa, ég held að þetta sé miklu frekar birtingarmynd af því sem ég var að tala um áðan við hv. þingkonu Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þ.e. við hvað Vinstri grænir eiga að etja í þessari ríkisstjórn. Þau geta ekki einu sinni á sínum eigin landsfundi lagt fram róttæka stefnu í þessum málum vegna þess að þau eru bundin í samstarfi við flokk sem vill helst færa okkur aftur á 20. öldina og lifir þar meira eða minna. Þess vegna ítreka ég það sem ég sagði í upphafi, ég held að hv. þingmaður hafi ekki komið of seint í umræðuna — ég held að hann sé ekki mættur í samtímann. [Hlátur í þingsal.] (BN: Það er aldeilis.)