150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

aðgerðir Íslandsbanka.

[10:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Við höfum sambærilegar hugmyndir, held ég, um hlutverk banka hvað þetta snertir, að þeir þjóni því meginhlutverki sínu að vera til staðar fyrir heimili og fyrirtæki til að miðla fjármagni, veita lán og taka við innlánum. Í því samhengi erum við að tala um algjöra kjarnastarfsemi.

Það eru nýjar fréttir fyrir mér að þessar áherslur séu að birtast. Við skulum sjá hverju fram vindur. Ég hef afskaplega takmarkaðar upplýsingar um þessa nýju stefnu ef stefnu mætti kalla sem við erum hér að ræða. Eins og fram er komið eru margar hliðar á því. Ef menn vilja fara í það að reka jafnréttisbanka eða grænan banka verður auðvitað að vera einhver samkvæmni í því alla leið. Það er ekki samkvæmt eigendastefnunni og fyrst spurt er um hana þá er hún til endurskoðunar.