150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

[10:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fram undan eru stórframkvæmdir í vegamálum á höfuðborgarsvæðinu. Í því samstarfi þarf ríkið að fara í samstarf við Reykjavíkurborg, við borg sem virðist ekki hafa hugmynd um hvernig á að standa að vegaframkvæmdum. Hún leyfir keyrslu niður Laugaveginn, upp Laugaveginn og svo þegar hún gafst upp á því lokaði hún bara. Hún grefur upp Hverfisgötuna og veit ekki hvenær hún ætlar að klára. Borgir fer í framkvæmdir á Bústaðavegi, eina einfalda beygjuakrein. Hverjar eru afleiðingarnar? Í staðinn fyrir að vera hálftíma þessa vegalengd er maður klukkutíma. Nú er framkvæmdin stopp vegna þess að það gleymdist að fara með hana í grenndarkynningu.

Ég spyr því: Hvernig í ósköpunum ætlum við að fara að því þegar á að fara að setja Reykjavíkurveg í Hafnarfirði eða Reykjavíkurveg í Garðabæ og Miklubraut í stokk? Hvað á að gera við þá umferð sem er þar í dag og hvert á hún að fara á meðan? Á hún að fara inn á stofnbrautir sem nú þegar eru fullar? Er búið að leysa þetta vandamál? Ef maður horfir á Bústaðaveginn og afleiðingarnar þar segir það sig sjálft að ef á að beina allri umferð á Sæbrautina sem áður fór Miklubrautina verður fólk ekki klukkutíma að komast í vinnu heldur tvo eða þrjá tíma. Ég beini þess vegna þessum spurningum til hæstv. vegamálaráðherra, þ.e. samgönguráðherra: Er búið að leysa þennan vanda? Hvernig á að leysa hann? Er eitthvert plan B, eitthvað sem mun tryggja það að umferðin gangi greiðlega á meðan framkvæmdir standa?