150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

veggjöld.

[10:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það væri ágætt ef spurningum væri svarað hérna. Hæstv. ráðherra var greinilega ekki að hlusta á umræður um samgönguáætlun í vor þegar við í Pírötum vorum mjög á móti veggjaldaáætlunum og -áformum meiri hlutans. Það var í áliti meiri hlutans, þ.e. stjórnarflokkanna og nokkurra annarra flokka á þingi, þar sem lögð voru til veggjöld. Ekki stóðu Píratar að því, langt í frá.

Spurningin sem mig langar að spyrja í framhaldinu er mjög einföld: Hver heimtaði að hafa veggjöld í samkomulaginu um það að fjármagna almennar vegaframkvæmdir og viðhald? Það er algerlega óþarfi að hafa þau ákvæði þar því að það er alltaf á ábyrgð þingsins, þingflokka og þingmanna, að taka ákvörðun um það hvort eigi að taka veggjöld eða ekki. Sveitarfélögin hafa ekkert um það að segja. Það er á ábyrgð þingsins.