150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

innheimta skatta.

[11:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér þykir þingmaðurinn slá heldur mikið úr og í með því að segja að sumir séu hundeltir af skattyfirvöldum en á sama tíma leggja áherslu á að við stóraukum skatteftirlit í landinu. (ÞorS: Smáfiskarnir.) Smáfiskarnir, segir hv. þingmaður. Við náðum gríðarlega miklum árangri með því að fara í sérstakt átak við að uppræta svarta atvinnustarfsemi hjá smáfiskunum, sem kalla mætti, sem leigja út herbergi og íbúðir úti um allan bæ í Airbnb-fyrirkomulagi. Það munaði miklu að fara í það, jafnvel þótt þar væru ekki á ferðinni stórfyrirtæki eða alþjóðleg starfsemi.

Ég held að við lendum aðallega í einhverjum vandræðum ef menn gefa til kynna að þeir ætli að vera með lausa klóna á ákveðinni tegund starfsemi en einbeita sér frekar að einhverri annarri. Ég held að við séum sammála um að jafnt eigi yfir alla að ganga í þessu og að við getum gert betur. Í mínu ráðuneyti hlustum við mjög náið eftir ábendingum innan úr kerfinu, hvort sem eru þau embætti sem nefnd hafa verið hér eða önnur, (Forseti hringir.) þegar menn telja sig geta gert betur með meira fjármagni. Það er samt ekki þannig að fyrir hverja 1 kr. sem við setjum í skatteftirlit fáum við aðra beint í ríkiskassann, enda myndum við þá bara að setja alla peningana í skatteftirlit og fá endalaust af peningum í kassann.