150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu.

146. mál
[11:09]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Frá stofnun Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur Atlantshafsbandalagið stækkað og fjölgað aðildarríkjum sínum í þrígang og nú í fjórða skipti. Í hvert sinn sem þær stækkanir hafa verið teknar fyrir á Alþingi og farið í atkvæðagreiðslu um þær í þingsal hefur afstaða þingmanna VG ávallt verið sú sama. Þeir hafa skilað minnihlutaáliti í hv. utanríkismálanefnd og setið hjá við atkvæðagreiðsluna, enda er andstaða við veru Íslands í hernaðarbandalagi ein af grunnstoðum í stefnu hreyfingarinnar. Sú afstaða í gegnum tíðina er óbreytt hér í dag, enda gengur stækkun bandalagsins í berhögg við áherslur VG. NATO er hernaðarbandalag en ekki krúttlegur friðarklúbbur. Stækkun Atlantshafsbandalagsins er ekki grundvöllur friðar, stöðugleika og öryggis í heiminum. Það væri heldur gert með styrkingu alþjóðastofnana, alþjóðasamvinnu, samtala og lýðræðislegra lausna.

Þess vegna sitja þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboð (Forseti hringir.) hjá í atkvæðagreiðslunni í dag.