150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu.

146. mál
[11:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Atlantshafsbandalagið hefur frá upphafi sannað mikilvægi sitt sem kjölfesta í öryggis- og varnarmálum Evrópu. Það hefur verið gríðarlega mikilvægur samstarfsvettvangur vestrænna þjóða og frá því að múrinn hrundi fyrir nákvæmlega 30 árum hafa margar þjóðir Austur- og Mið-Evrópu bæst við í bandalagið. Þær hafa talið mikilvægt vegna öryggishagsmuna sinna að eiga samleið með þjóðum Atlantshafsbandalagsins og ég held að það sé mikið fagnaðarefni að þróunin hafi verið með þeim hætti.

Þrátt fyrir að aðstæður hafi með mörgum hætti breyst í heiminum, ekki síst stóra breytingin frá 1989 og í kjölfarið, er það enn þannig að oft horfir (Forseti hringir.) ófriðlega í heiminum og því er mikilvægt að þjóðir sem eiga samleið hafi vettvang til þess að vinna saman. Atlantshafsbandalagið hefur þjónað þeim tilgangi vel.