150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Lýðveldisins Norður-Makedóníu.

146. mál
[11:13]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nú sit ég sem formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins og á undanförnum fundum, í eins og 18 mánuði, hefur Norður-Makedónía sótt mjög hart að komast inn í Norður-Atlantshafsbandalagið. Reyndar er þetta 20 ára saga. Á fundi NATO-þingsins í London fyrir rúmri viku spurðu Norður-Makedónar um stöðuna vegna þess að þeir stefna á þetta og eru mjög áhugasamir. Þeir líta á það sem gríðarlega stórt og mikilvægt mál fyrir sitt land að komast inn. Ég fagna því að við séum þá að greiða atkvæði um þetta hér. Þetta snýst um stöðugleika, það er mikil áhersla innan NATO-þingsins og í NATO á stöðugleika í Balkanríkjunum og Norður-Makedónar líta á það sem mjög stórt og mikilvægt mál fyrir sitt land að komast inn í NATO.