150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

lax- og silungsveiði.

251. mál
[11:32]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki hvorki nákvæmlega ástæðu þess hvers vegna Hæstiréttur var settur inn í þetta né grunnástæður fyrir því að menn skyldu vera með hæfisskilyrði héraðsdómara til að sitja í þessari nefnd. Það kann að vera vegna þess að forðum tíð hafi menn ekki haft jafn miklar upplýsingar og við höfum í dag um þá grunnþætti sem ég nefndi sem liggja til grundvallar arðsemisskránni í dag. Sú vinna sem ég vitnaði til að forveri minn hefði sett af stað með aðild helstu hagsmunaaðila skilaði í raun þeim tillögum að breytingum sem hér eru lagðar til varðandi 2. gr., þ.e. að draga meiri líffræðilega þekkingu inn í þetta arðskrármat en einhverja þurra dómaravisku. Ég geri ekki lítið úr henni en hún nálgast málið út frá allt öðrum forsendum. Í grunninn mætti segja að með þeirri uppsetningu sem þarna er sett fram sé miklu eðlilegra að Hafrannsóknastofnun, sem vissulega hefur í gamla fyrirkomulaginu tekið mjög mikinn þátt í að mata gögn sem eru öll til hjá stofnuninni undir hennar verndarvæng, taki þátt í vinnunni frá upphafi til enda frekar en að vera einhvers staðar á hliðarlínunni. Svo er það veiðifélaganna sjálfra og fundar í þeim að útkljá deiluefni sín á milli varðandi arðskrána og ef ekki næst saman er sjálfsagt mál að þau geti skotið þessum ágreiningi eitthvað lengra og þá til dómstóla ef þannig vill verkast.