150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

lax- og silungsveiði.

251. mál
[11:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að heyra að við deilum sömu sýn til þess að nauðsynlegt sé að styrkja minnihlutaverndina í veiðifélögum. Ég er innilega sammála hv. þingmanni í því að sú skylda að vera í veiðifélagi er mjög íþyngjandi, það er að mínu mati og ég heyri að við hv. þingmaður deilum þeirri sömu skoðun og sömu sýn.

Ég hef heyrt þau sjónarmið sem hv. þingmaður nefnir um að útfærslan á þessari 30%-reglu geti leitt til þess að við einhverjar tilteknar aðstæður megi kalla þá breytingu minnihlutaræði. Það er hárrétt og þar af leiðandi kallaði ég eftir því, lagði til og undirstrikaði og svara þar með enn og aftur spurningu hv. þingmanns, að það sé mikilvægt að beina þeim skilaboðum og þeirri ósk til atvinnuveganefndar að hún fjalli um þetta sérstaklega. Það er engu skárra í rauninni og langt því frá að við höfum í hyggju að styrkja vernd minni hluta sama í hvaða félagsskap það er. Þá er illa af stað farið, ef við búum þannig um hnútana að við tryggjum minni hluta í félagi einhver völd umfram meiri hluta í félagi. Það er ekki hugsunin sem þarna liggur að baki og þess vegna gat ég um það sérstaklega í framsögu minni að ég hefði heyrt þessi sjónarmið og m.a. af þeirri ástæðu að þetta atriði var ekki í frumvarpinu þegar það fór í samráðsgáttina ýtti ég frekar undir það að nefndin skoðaði það sérstaklega og ég vænti þess að hún muni gera það. Með sama hætti, ef þannig skipast mál, ef það eru fleiri þættir varðandi lögin um lax- og silungsveiði, ef nefndin sér ástæðu til þess að fara ofan í þá þætti, samanber það sem hv. þingmaður nefndi hérna, (Forseti hringir.) er það mér algjörlega að meinalausu.