150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

lax- og silungsveiði.

251. mál
[11:46]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi fagna því að þetta frumvarp sé komið fram, frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðifélög, um þá sérstöku löggjöf eins og komið hefur fram í umræðum við hæstv. landbúnaðarráðherra og andsvörum sem er að mörgu leyti afar óvenjuleg, sé ekki einungis horft út frá félagafrelsinu og þeim ákvæðum sem eru í lögunum er rakin voru hér í örstuttri framsögu. Ég held að kannski sé mikilvægt þegar við hefjum umræðuna um breytingu á lögunum að fara inn í það á hvaða forsendum hún er uppbyggð og um tilkomu þessara sérstöku laga. Árið 1849 var í gildi tiltekin tilskipun um veiðirétt og síðan var löggjöfin sett, fyrst að mig minnir 1923 eða 1928, ég hefði átt að fletta því nákvæmlega upp. Það var gert í kjölfarið á miklum breytingum sem voru þær að menn höfðu gengið mjög langt í því á einstaka landsvæðum að kaupa veiðirétt undan lögbýlum eða undan bújörðum. Löggjafinn ákvað að stíga inn í það með þeim hætti að reyna að sporna við því sem frekast mátti að hlunnindin væru aðskilin jörðunum. Þannig hefur verið gengið um það allar götur síðan að menn horfa á nýtingu hlunnindanna til styrktar búsetu á jörðum. Það er kannski ekki síst þess vegna sem þetta ákvæði —

Forseti. Er ég ekki í ræðu?

(Forseti (ÞorS): Þú ert í ræðu, hv. þingmaður.)

Þá þarf að laga klukkuna, það er eina athugasemdin.

Þess vegna held ég að þann þátt sé nauðsynlegt að ræða, hvers vegna við umgöngumst löggjöfina á þennan hátt, hvernig hún styður við búsetu og byggð í landinu. Ég er ekki í nokkrum vafa um að við getum horft yfir söguna og sagt að sú lagasetning hafi verið mikilvæg í tvennum skilningi. Í fyrsta lagi var þetta ein fyrsta umhverfislöggjöf okkar sem snýst þá um vernd þessara fiskstofna, silungs og lax, og nýtingu þeirra og í öðru lagi mikilvæg forsenda fyrir byggðastoð í sveitum. Ég held að enginn velkist í vafa um efnahagslegt mikilvægi nýtingar veiðihlunninda fyrir margar sveitir þessa lands og í raun og veru ætla ég að ganga svo langt að fullyrða að það er nánast forsenda búsetu í mörgum sveitum að svo vel hefur tekist að halda utan um slík hlunnindi og láta þau skapa verðmæti fyrir byggðina. Það er ekki svo langt síðan að í dómi Hæstaréttar þar sem deilt var um veiðiréttindi var einmitt dregið fram að tilgangur laganna og megininntak þeirra væri fyrst og fremst að styðja við búskap á lögbýlum. Það er mjög athyglisvert að lesa rökstuðning þess sem stefndi í því máli og síðan niðurstöðu Hæstaréttar og sjá það rammað jafn skýrt inn að megintilgangur þeirra laga sé að styðja við búskap á lögbýlum. Í því máli var deilt um að land hefði verið selt út úr jörð og menn töldu að veiðiréttur hefði fylgt því landi en Hæstiréttur komst að því að veiðirétturinn ætti að fylgja lögbýlinu sem landspildan var úr. Ég geri mér fulla grein fyrir því að við breytingar á lögum um veiðifélög, þeim sem síðast voru gerð, stóra endurskoðun sem var gerð fyrir ekki mörgum árum, var um þetta deilt en ég ætla aftur að undirstrika það að í raun og veru er andi upphaflegu löggjafarinnar að láta veiðihlunnindin vera stoð fyrir búskap og byggð í sveitum. Undir það tók Hæstiréttur í dómi sínum eins og ég les það úr honum.

Hæstv. landbúnaðarráðherra vitnaði til þess í framsögu sinni að ég og fleiri þingmenn hefðum hreyft þessu máli með tillöguflutningi eða lagt fram tillögu þessa efnis á Alþingi og ég ætla ekki að segja annað en að hún var tilraun til að opna umræðuna um þetta. Ég ætla ekki að halda því fram að hún hafi verið hin fullkomna eina rétta leið. Ég tek undir það með hv. þm. Sigríði Á. Andersen sem veitti andsvör við hæstv. landbúnaðarráðherra að nefndin verður að fara vel í gegnum hvernig á að undirbyggja það. En kannski er umræðan um söfnun jarða og jarðauppkaup ekki síður drifkraftur í þeim efnum. Ekki bara það að við þekkjum deilur í veiðifélögum, átök í sveitum þar sem verið er að fást við stjórn veiðifélaga þar sem í einhverjum tilfellum er verið að deila um útleigu áa, byggingu veiðihúsa sem geta skapað þær aðstæður að ekki sé greiddur út arður í langan tíma til þeirra sem búa í sveitunum af því að menn ætla að fara út í stórar framkvæmdir eða yfir í það að þetta ákvæði verði til þess að dempa — ég ætla bara að segja það skýrum orðum — áhuga á því að hægt sé að ráðast inn í sveitarsamfélög með þessum hætti. Þetta er eitt púsl í þeirri mynd sem við verðum að ræða í umræðunni um söfnun bújarða. Að mörgu leyti finnst mér umræðan um jarðasöfnun og samþjöppun eignarhalds á bújörðum oft og tíðum vera óraunsæ. Ég vil ekki að við gleymum því að auðvitað megum við ekki ganga svo langt að segja að þeir sem halda þeim eignum, bújörð, standi frammi fyrir löggjöf sem gerir þær nánast óseljanlegar eða verðlitlar. Þó er líka mikilvægt að þingið, Alþingi, sé meðvitað um hvaða þróun er að verða og sé meðvitað um til hvers sú þróun getur leitt. Við sjáum of margar jarðir á Íslandi í dag fara í eyði, byggð er að veikjast mjög víða og fyrir því eru ótal ástæður.

Það er samt þannig, virðulegi forseti, að frá árinu 2016 hefur fólki aftur fjölgað í dreifbýli á Íslandi. Það er í fyrsta sinn síðan 1906 sem það gerist. Það er gleðileg þróun vegna þess að ég held að ákaflega mikilvægt sé fyrir okkur öll, hvort sem við horfum á það út frá okkur sjálfum, Íslendingum, en ekki síður vegna þess hversu áhugavert landið er fyrir ferðamenn, að byggð sé sem víðast, að hún sé sterk og að hún sé öflug. Þetta er ákaflega brothætt þróun og stórt spil í því er hvernig við umgöngumst verslun og aðilaskipti eða eigendaskipti á bújörðum á Íslandi. Það er fyrst og fremst kveikjan að því frumvarpi sem ég og aðrir þingmenn sýndum á spilin á síðastliðinn vetur og hæstv. landbúnaðarráðherra hefur fært í þann búning að fella þetta að sínu máli efnislega.

Það eru fleiri þættir sem ráða að sjálfsögðu um áhuga á verslun með bújarðir og hvort það séu stór vandamál að eignarhald sé að þjappast saman. Um það eru svo sem deildar meiningar.

Ég held að varðandi þann þátt, eignarhald bújarða, hversu erfitt er t.d. að koma þeim á milli kynslóða, verðum við að horfa til miklu fleiri þátta en einungis laga um lax- og silungsveiði. Það er miklu frekar hægt að horfa til skattkerfis í þeim efnum því að því miður er efnahagslegur styrkur fólks sem býr í sveitum, eða vegna starfsemi sem hægt er að reka á bújörðum, svo við segjum þetta berum orðum, þetta veldur því oft og tíðum að hátt jarðaverð fælir frá því að endurnýja byggð á forsendum búskapar. Á þá löggjafinn að grípa inn í og taka eigurnar af fólki? Ég held að það sé í raun og veru ekki það sem við meinum. Við meinum miklu frekar það að þeir sem vilja geti búið í sveitum, hvort sem þeir ætla að búa með kýr og kindur eða reka hönnunarfyrirtæki og nota nútímafjarskipti til þess eða byggja upp öfluga ferðaþjónustu. Það er náttúrlega á þeim forsendum sem við viljum sjá byggðina þróast og spurningin hvernig við getum gert það mögulegt.

Þá staldra ég oftar en ekki við skattkerfið sem að mörgu leyti er letjandi og íþyngjandi fyrir eldra fólk til að færa slíkar eigur sínar yfir, hvort sem það er til afkomenda sinna eða yngra fólks sem er því óskylt, og hvernig við förum með söluverð bújarða, skattleggjum það og hvernig framkvæmd á þeim hlutum hefur breyst á undanförnum árum. Í mjög langan tíma var ekki fettur fingur út í það að eldri bændur færðu þessar eignir yfir til afkomenda sinna til að tryggja áframhaldandi búrekstur og búskap á matsverði en nú hefur skattframkvæmd breyst þannig að skatturinn lætur sig það varða að verið sé að færa bújarðir á milli kynslóða á óeðlilegu verði, eins og sagt er. Hvort sem það er þetta mál sem hér er til umræðu eða ekki tel ég það mjög mikilvægt spil í þessu og hefur verið kallað mjög mikið eftir því í þeim pólitísku umræðum sem hafa verið úti um land, hvað varðar hagsmunir þeirra sem halda utan um þá mikilvægu auðlind sem lax- og silungsveiði er og ekki síður þeirra sem horfa framan í þróun þeirrar byggðar sem ég var að lýsa sem stendur á ákveðnum krossgötum. Það er aftur á móti gleðilegt, eins og ég rakti, að sjá að það er áhugi fyrir því að setjast að úti í sveit, það er áhugi fyrir því að byggja upp aðra starfsemi en einungis þá sem byggir á landnýtingunni með beinum hætti í gömlum hefðbundnum skilningi og ég held að rétt sé að vinna nákvæmlega þann kraft sem þar birtist. Það er ekki bara eitthvert eitt þingmál og það eru ekki bara einhver tvö og það eru ekki boð og bönn í þeim efnum sem munu gilda. Það þarf miklu breiðari nálgun og miklu fjölþættari aðgerðir til að slík bylting heppnist.

Virðulegur forseti. Ég styð þetta frumvarp að sjálfsögðu en ekki er í mínum huga á nokkurn hátt verið að leggja til að þannig sé um gengið að ástandið verði verra með einhverju minnihlutaræði eftir að meðferð málsins lýkur. Ég vil aftur á móti í lok ræðunnar minna á megintilgang laganna um lax- og silungsveiði sem eru grundvölluð á því að styrkja byggð og búsetu í sveitum. Það er útgangspunkturinn sem við verðum alltaf að hafa í meðferð breytinga á lögunum og meðferð löggjafarinnar allrar sem er efnahagslega mikilvæg fyrir sveitir landsins.