150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

lax- og silungsveiði.

251. mál
[12:05]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir innlegg hans í þessa umræðu um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði. Ég tek fram að ég er hlynnt meginmarkmiðum frumvarpsins og það er ánægjulegt þegar maður sér framkvæmdarvaldið taka það fyrir tilstuðlan þingmanna upp á arma sína og klára inn í þingið. Eins og við þekkjum daga frumvörp okkar þingmanna oft uppi en síður ráðherra þannig að ég er ánægð með að þetta frumvarp sé hingað komið.

Hér er svo sem farið vel yfir málið og gengið út frá því að um minnihlutavernd sé að ræða, að það sé tilefni og nauðsyn. Það er hægt að tala skýra íslensku og segja að verið er að bregðast við uppkaupum á landi. Þetta er til að bregðast við því að stóreignamenn kaupa því miður upp land í allt of miklum mæli, kaupa sér hlunnindi fyrst og síðast, m.a. laxveiðiár og aðgang að vatni. Þetta er einn þáttur í því að bregðast við eins og hefur verið rakið. Ég get tekið undir allflest af því sem hv. þm. Haraldur Benediktsson fór yfir í ræðu sinni, við höfum tekist á við hvað það þýðir að hafa búsetu í dreifðri byggð landsins. Eins og hann kom inn á er megintilgangur laga um lax- og silungsveiði einmitt sá að styrkja og styðja við slíka byggð. Nú horfum við upp á að það er ekki lengur tilfellið þegar ljósin hafa verið slökkt í ansi mörgum íbúðarhúsum til sveita og það byggist fyrst og fremst á því að einhverjir eru orðnir einráðir og gera það sem þeim þóknast, hvort sem það er að hætta við að borga út arð, byggja veiðihús, búa til laxastiga eða guð má vita hvað. Þetta frumvarp á væntanlega að tryggja að ekki sé hægt að taka slíkar ákvarðanir nema fyrir tilstuðlan annarra eigenda sem eru aðilar að þessum hlunnindum.

Í frumvarpinu kemur fram að þetta eru um 4.500 lögbýli og talið að mestar tekjur af veiðihlunnindum séu á Vesturlandi, Norðurlandi og svo á Suðurlandi. Það er alveg augljóst að stór hluti af landeigendum hefur hagsmuni af þeim ákvörðunum sem þessi veiðifélög taka. Eins og við höfum rætt í tengslum við hin málin, þessi uppkaup, er þetta eitt af því sem þar hefur borið á góma. Ef frumvarpið verður að lögum velti ég fyrir mér hvort það hafi bein áhrif á það hvort menn hafi yfir höfuð hug á því að kaupa upp jarðir í eins miklu magni og við höfum orðið vitni að, ef þetta verður niðurstaðan. Líkt og í hinu málinu getur, þegar við höfum fjallað um uppkaup, vaknað sú spurning hvort það rýri verð jarða ef við takmörkum á einhvern hátt eign þess sem á jörð. Við getum spurt: Erum við að rýra verðgildi eigna ef við viljum koma í veg fyrir uppkaup? Ég held ekki. Ég held að við getum komið í veg fyrir slíkt. Því verður hins vegar að halda til haga sem ráðherra nefndi ítrekað í andsvörum, að nefndin fer auðvitað yfir þessa aðferð og fleiri aðferðir og væntanlega koma inn umsagnir sem hljóða eitthvað í þá veru að ekki séu allir á eitt sáttir með akkúrat þessa leið. Því má velta upp með þá sem hafa keypt upp jarðir undir einhverjum tilteknum lögum hvort við séum beinlínis að rýra kaup þeirra og eignir. Þá er ég ekki að tala fyrir uppkaupum, alls ekki, svo það sé á hreinu, en þetta er nokkuð sem þarf að velta fyrir sér, hvað sé hér undir, og ég treysti nefndinni til að fara mjög vel yfir það.

Mér finnst að það sem við eigum alltaf að ganga út frá og horfa á sé einmitt það sem hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom inn á og fleiri, hin samfélagslega ábyrgð og það að þetta er ein af auðlindum landsins okkar. Jarðir og ár eru undir og tekjurnar sem af þeim hljótast mega ekki hverfa úr landi jafnvel eða inn í hlutafélög eða eitthvað slíkt. Mér finnst mjög mikilvægt að þær skili sér til samfélagsins. Þess vegna held ég að eitt af því sem við þurfum að skoða sé hvort þetta sé ekki ein af þeim leiðum sem verði til þess að féð og arðurinn verði eftir í samfélaginu.

Ég segi aftur að ég styð markmið þessa frumvarps og vona að nefndin geti farið yfir það og skilað af sér fyrir jól.