150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

lax- og silungsveiði.

251. mál
[12:11]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Herra forseti. Mig langaði til að ræða aðeins þær breytingar sem hér eru lagðar til og efni greinargerðar, og fleiri atriði sem tengjast þessu máli og hefði verið hægt að taka á í leiðinni. Fyrir það fyrsta hef ég starfað í kringum íslenskar veiðiár allt frá árinu 1984, að ég held, og er búinn að fylgjast með og sjá hvernig þróunin hefur verið við árnar. Hér eru lagðar til breytingar í þrem atriðum aðallega, varðandi minnihlutavernd í veiðifélögum, breytingu á skipan arðskrárnefndar og svo milligöngu hins opinbera við greiðslu kostnaðar vegna starfa þeirrar nefndar.

Hér var rifjuð upp tilkoma veiðifélaganna og hlutverk þeirra og markmið laganna um að styrkja byggð og búsetu í sveitinni. Ég held að rétt sé að minnast þeirra Þórs Guðjónssonar, fyrrverandi veiðimálastjóra, og Einars Hannessonar, skrifstofustjóra Veiðimálastofnunar, sem unnu þrekvirki á sínum tíma við að koma á því kerfi sem við búum nú við, félagskerfinu í kringum veiðinytjarnar sem hefur verið farsælt í gegnum tíðina. Það hefur auðvitað þurft að taka breytingum og þróast eftir því sem fram hefur undið sem og taka á nýjum áskorunum sem hafa komið upp á þeirri leið. Ég náði að kynnast og vinna með þessum mönnum í upphafi míns starfsferils. Það er mikilvæg arfleifð sem þeir skilja eftir sig og svo halda menn áfram veginn.

Það sem ég rek augun í og sakna sérstaklega við yfirferð á frumvarpinu og greinargerðinni er að ég áttaði mig fljótlega á því að ekki hefur verið mikið samráð við Landssamband veiðifélaga, félag veiðiréttarhafa, sem hefur í gegnum tíðina skipt miklu máli og verið gott samband og samráð landbúnaðarráðuneytis við þessi hagsmunasamtök. Ég legg áherslu á að lengra verði gengið í þá veru, sérstaklega ef verið er að leggja til stórar og miklar breytingar. Ég ætla svo sem ekki að ræða mikið minnihlutaverndina sem er mikilvæg. Síðan eru mögulegar alls konar útfærslur, hvað þykir sanngjarnt og annað með tilliti til skylduaðildar að veiðifélögum, túlkun eignarréttar og fleiri atriða sem vissulega þarf að taka á og vanda sig og mikilvægt að í því máli náist góð og farsæl niðurstaða í samvinnu við veiðiréttarhafana sjálfa ekki síst en auðvitað með það grunnmarkmið öllum stundum að við viljum styrkja byggð og búsetu í sveitum landsins með þeim lögum sem fjalla um þennan málaflokk. Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða tillöguna um minnihlutaverndina. Ég á von á því að um þann þátt verði fyrirferðarmikil umræða á næstunni sem margir muni koma að. Vonandi verður það vönduð og góð umræða sem skilar farsælli niðurstöðu.

Hér er fjallað um önnur atriði sem ég hygg að muni kannski falla í skuggann af akkúrat þessari boðuðu breytingu og ég vil ræða frekar. Mér finnst að ekki þurfi síður að gæta að þeim. Í fyrsta lagi þegar verið að gera svona breytingar og laga til lögin eiga menn að nota tækifærið eins og hægt er og taka á fleiri þáttum sem er verið að brasa með og veiðifélögin til að mynda sitja uppi með. Það er t.d. enn þá flækjustaða með veiðifélög sem eru á stóru vatnasvæði þar sem eru margar misvirkar deildir. Ég tek sem dæmi Veiðifélag Skagafjarðar en ekki hefur verið starfsemi á þess vegum sem slíks í 20 ár. Hins vegar eru deildir eins og Veiðifélag Húseyjarkvíslar, Veiðifélag Sæmundarár og Veiðifélag Norðurár sem eiga í ákveðnum erfiðleikum við að fylgja eftir sínum skyldum og halda uppi starfsemi vegna þeirrar stöðu sem erfitt er að greiða úr, að vera aðili að félagi sem er ekki líf í. Ég hefði t.d. viljað að tækifærið hefði verið notað til að taka á svona hlutum. Það eru líka dæmi um þetta á Suðurlandi og víðar um landið þar sem eru mörg aðskilin veiðivötn og ár á sama vatnasvæði þar sem þarf að tvinna saman hagsmuni og tryggja að það gangi eftir. Eins og hlutir hafa verið að þróast eru líka á einstökum jörðum að verða til fleiri og fleiri eigendur jarðanna. Eigendur falla frá og óskiptur hópur erfingja tekur jafnvel við viðkomandi jörð, hóparnir geta farið sístækkandi og það verður enn meira mál fyrir veiðifélögin, þegar þarf að gera t.d. viðamiklar breytingar, fá nýjar samþykktir eða taka stórar ákvarðanir sem skipta máli, að ná til eigendanna. Hvernig fara menn að því þegar kannski eru komnir 50 eigendur að einum jarðskika? Ég nefni þetta sem dæmi um viðfangsefni sem þyrfti að leysa betur úr. Þetta þekki ég af miklum samskiptum við veiðifélögin. Þetta er meðal þeirra mála sem þau eiga við og hafa enga lausn á. Fiskistofa og aðrir sem þau eiga að leita til hafa engin svör heldur þannig að þau eru eiginlega mát. Fleiri slík verkefni væri hægt að nefna sem ég myndi vilja að farið yrði ofan í í leiðinni.

Þá vil ég koma að breytingum á skipan arðskrárnefndar. Þar er horft til þess að meiri fagþekking komi að við að meta gildi hlunninda einstakra jarða. Ég hef stundum velt því fyrir mér, þar sem ég hef verið jafnvel í áratugi í rannsóknum á einstökum ám, að síðan eru greind gögnin sem unnin eru úr því og notuð af lögfræðimenntuðu fólki og öðrum sem hafa ekki fagþekkingu eða reynslu á því sviði og jafnvel án þess að óska frekari útskýringa eða fá varpað ljósi á einhverja hluti sem það myndi vilja vita meira um. Ég held að á margan hátt sé það til bóta að auka fagþekkingu í kringum þessi möt þótt þau séu orðin nokkuð klippt og skorin. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan er verið að horfa á bakkalengd, veiðitölur og búsvæðamöt, en þau eru líka mannanna verk. Ég kom að því á mínum 12–13 ára ferli sem deildarstjóri hjá Veiðimálastofnun að þróa þau möt sem enn er unnið eftir. Reyndar hefur ekki mikið gerst í að þróa þau áfram síðustu 15 árin. Í ljósi þess hvað búsvæðamöt eru orðin þýðingarmikill hluti í arðskrármati, farin að vera allt upp í einn þriðji af matinu, er ástæða til að leggja enn meiri kraft í að fara aftur og betur ofan í það hvernig þau hafa reynst og þróa þau áfram þannig að þau endurspegli sem mest raunveruleikann og rétt verðmæti þessara svæða. Ég sakna þess svolítið og þau endurspegla jafnvel ekki að öllu leyti það sem maður sér. Ég hvet til þess að ýtt verði undir slíkt ef þau eiga að hafa meira gildi en verið hefur. Þróunin hefur verið sú síðustu ár. Ég hef unnið mörg slík möt sjálfur og tel mig vita hvað ég er að tala um í þeim efnum.

Hér er lagt til að Hafrannsóknastofnun leggi til eða bendi á aðila til að skipa í nefndina sem kemur að því að skipta upp þessum arðskráreiningum við árnar og þá í krafti þess að hafa meiri þekkingu en einhverjir lögfróðir. Það er gott og vel upp að vissu marki. Ég vil þó leggja áherslu á að það gengur ekki að mínu mati að sami aðili leggi mat á eigin verk í einhverjum mæli. Það gengur eiginlega ekki að stofnunin sem sinnir þjónusturannsóknum, vinnur búsvæðamöt og sinnir rannsóknum á veiðiám stýri arðskrármati og eigi að vinna út frá eigin gögnum og meta þau. Það þarf að tryggja að þá séu aðilar með til þess bæra menntun, reynslu og getu til að sinna slíku sem ekki starfa hjá stofnuninni þegar um er að ræða ár sem stofnunin sinnir með þessum hætti. Ég segi fyrir mig sjálfan að þar sem ég hef sinnt slíkum rannsóknum sæi ég ekki fyrir mér að vera síðan mættur í dómarasætið við að fara að reikna niður á jarðir út frá mínum rannsóknum og jafnvel búsvæðamötum. Ég hafna því alfarið að þetta sé lagt svona upp. Reyndar hefur Landssamband veiðifélaga líka bent á þetta og ef mér leyfist að vísa í umsögn þess frá 23. október segir þar:

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra skipi einn fulltrúa samkvæmt ábendingu Hafrannsóknastofnunar. Í flestum málum sem koma á borð arðskrárnefndar liggur fyrir búsvæðamat sem oft er unnið af Hafrannsóknastofnun. Kemur þá til kasta fulltrúa að taka afstöðu til búsvæðamats sem unnið er af sömu stofnun og tilnefnir hann. Afstaða nefndarmanna til búsvæðamatsins getur haft verulega þýðingu fyrir arðskrármatið og færa mætti fyrir því rök að fulltrúi sem tilnefndur er af Hafrannsóknastofnun væri vanhæfur til að fjalla um búsvæðamat unnið af sömu stofnun og meta vægi þess.“

Ég legg eindregið til að þetta verði lagfært og fyrst og fremst miðað við að hæfir og menntaðir einstaklingar takist á við þetta verkefni eins og ég held að markmið breytingarinnar sé, en ekki að þarna geti orðið þeir hagsmunaárekstrar sem hér verða að óbreyttu. Þá breytingu legg ég sérstaklega til.

Síðan eru aðrir hlutir sem ég velti fyrir mér. Varðandi það að draga úr milligöngu hins opinbera við greiðslu kostnaðar af störfum nefndarinnar virðist þetta ekki hafa verið mikil umsýsla, hvorki vinnufrek né dýr af hálfu ráðuneytisins. Svo virðist sem veiðifélögin vilji halda þessu áfram og óttist að þetta gæti jafnvel verið til óþæginda og kostnaðarauka. Mögulega gæti komið virðisaukaskattur inn og fleiri atriði sem þarfnast frekari skoðunar en einnig hefur ráðuneytið haldið utan um taxtana og slíkt sem bent hefur verið á í þessum efnum. Ég vek athygli á því.

Síðan stenst ég ekki mátið að spyrja hæstv. ráðherra út í eitt atriði sem kemur fram í greinargerðinni. Þar segir að með frumvarpinu sé lagt til að „gerðar verði breytingar á skipan arðskrárnefndar í veiðifélögum þannig að tryggð verði aukin sérþekking á fiskifræði í nefndinni“. Það er vel. Síðan segir: „Mögulegt er að þetta geti orðið til þess að draga úr kostnaði vegna starfa sérfræðinga …“ Þá spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann meti það svo að fagþekking og reynsla fiskifræðinga sé minna virði en vinna lögfræðimenntaðs fólks. Ég held að það sé mikilvægt að halda því til haga eða það verði útskýrt í hverju þessi kostnaðarminnkun felst.

Eins og ég hef reifað er ýmislegt sem þarf að fara yfir. Sumt vil ég að verði öðruvísi og annað sem ég tel að hefði átt að taka á í leiðinni.

Að lokum vil ég í tengslum við þessa umræðu nefna að í gærkvöldi var haldinn vinnufundur í aðdraganda þess að stofnað verði laxasetur og fræðasetur því tengt á Vopnafirði og verður forvitnilegt að tengja einhver verkefni í málaflokknum því setri. Ég vil nefna í því sambandi til að mynda veiðiskráningu og úrvinnslu veiðitalna vegna silungs- og laxveiði sem sinnt hefur verið án útboðs gegnum árin hjá Veiðimálastofnun og síðan Hafró. Það yrðu eitt til tvö störf og gæti verið mjög þýðingarmikill póstur hjá slíku fræðasetri að fela því slík verkefni á Vopnafirði.