150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

lax- og silungsveiði.

251. mál
[12:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hefur átt sér stað og hefur verið á þeim slóðum sem við var að búast, nema það sem kom fram síðast hjá hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni um að ég gengi erinda einhverrar klíku í Sjálfstæðisflokknum gegn klíkunni í dómarastétt. Þessi málflutningur er alveg með ólíkindum, að ég sé að efna til einhvers stríðs. Menn geta skemmt sér við þetta en það er órafjarri öllum veruleika. Þetta hefur ekkert með slíka hugarleikfimi að gera, svo ég reyni nú að róa hv. þingmann með því.

Þau sjónarmið sem hafa komið fram í umræðunni eru þess eðlis að ég held að það sé gott veganesti fyrir atvinnuveganefndina til að vinna úr þessu máli. Tveimur spurningum var hins vegar beint til mín í umræðunni sem mér er bæði ljúft og skylt að bregðast við. Í fyrsta lagi orðaði hv. þm. Bjarni Jónsson það hvort markmiðið væri að greiða einstaklingum með fiskifræðilega menntun eitthvað lægri laun en þeim sem væru með lögfræðimenntun. Það er alrangt og ef hv. þingmaður læsi greinargerðina með frumvarpinu er það tekið beint upp úr skýrslu sem gefin var út um störf arðskrárnefndar sem byggði á vinnu starfshóps á árinu 2015. Þar inni áttu Veiðimálastofnun og Landssamband veiðifélaga sína fulltrúa ásamt með starfsmönnum ráðuneytisins. Þetta var niðurstaða starfshópsins, að reyna að draga úr kostnaði við arðskrármatið, ekki endilega með því að fara að borga minna fyrir vinnuna eða neitt því um líkt. Þeim bara þótti kostnaðurinn við það fyrirkomulag sem hafði verið vaxa að ástæðulausu. Einhverjar skýringar hafa bæði veiðiréttarhafar, veiðifélögin og Veiðimálastofnun á þessu.

Hv. þingmaður nefndi að það væri æskilegt að hafa meira samráð við Landssamband veiðifélaga. Það var haft samráð við veiðifélögin á þessu stigi. Þau sendu inn umsögn, við bárum undir þau mál o.s.frv. Það kann vel að vera að mönnum líki ekki niðurstaðan eins og hún birtist en það verður bara að hafa það. En það er ekki hægt að mæla þannig fyrir málinu að ekki hafi verið haft samráð og þeim hafi ekki gefist tækifæri á að koma að sjónarmiðum sínum. Auk þess byggja þær tvær tillögur sem lúta að arðskrármatinu og nefndinni á tillögu og niðurstöðu þeirrar vinnu sem Landssamband veiðifélaga átti hlutdeild í. Það svarar að nokkru leyti þeim hugrenningum sem komu fram hjá hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni áðan að í greinargerð þessa starfshóps sagði að athygli vekti að það væru engar kröfur gerðar til fiskifræðilegrar þekkingar eða reynslu matsmanna enda þótt verulegur hluti matsins varðaði það fræðasvið. Mér heyrist á umræðunni að allir séu sammála um að þetta gerist. En síðan segir í þeirri sömu úttekt sem þarna var gerð af hlutlægum aðilum að arðskrármatið byggi á upplýsingum um matsþætti sem þegar liggja fyrir í flestum tilvikum. Þess vegna hefur þessi starfshópur, Veiðimálastofnun og Landssamband veiðifélaga rekið augun í það að úr því að þær forsendur liggi allar meira og minna fyrir sé einkennilegt að þessi kostnaður við arðskrármatið hækki ár frá ári. Mér fannst sjálfsagt að bregðast við því, enda ber frumvarpið það með sér.

Ég hef enga fordóma gagnvart Hæstarétti eða dómurum landsins, alls ekki, og treysti þeim til allra góðra verka. En það var niðurstaðan eftir yfirferð málsins að leggja þetta til með þessum hætti og ég vænti þess að þau sjónarmið sem hér hafa komið fram ítrekað fari atvinnuveganefndin yfir og geri þá eftir atvikum breytingar á málinu, ef henni sýnist svo.