150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

lax- og silungsveiði.

251. mál
[12:35]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Hljóðið í viðvörunarbjöllunum þýðir ekki að um einhvern ásetning sé að ræða hjá ráðherra. Viðvörunarbjöllurnar hljóma bara og þá spyr maður af því að maður þarf að fá svör. Nú hef ég ekki fengið svör við því sem ég spurði um. Jú, það er málefnalegt að fiskifræðileg reynsla sé sett inn. Það er málefnalegt og það er hægt að setja hana inn án þess að taka út kröfu um hæfi héraðsdómara eða þá að Hæstiréttur skipi mann í nefndina. Það er hægt að gera það og þess vegna spyr ég og þess vegna hringja viðvörunarbjöllurnar hjá mér.

Ég hef fylgst mjög vel með öllu þessu ferli varðandi skipan Landsréttar. Ég sá ítrekað hvers konar átök áttu sér stað þar. Ég nefndi það til stuðnings hæstv. dómsmálaráðherra, sem þá var Sigríður Á. Andersen, að listi yfir dómarana sem kom frá matsnefndinni var ekki málefnalegur. Dómsmálaráðherra hafði alveg rétt til að breyta honum en þurfti bara að gera það samkvæmt lögum. Ég hef á eigin skinni fylgst með þessum átökum þar sem menn eru að keppast um þetta. Auðvitað skiptir máli hverjir eru skipaðir dómarar landsins. Ég er bara vakandi yfir þessu af því að ég veit að svona hlutir gerast bak við tjöldin. Ég hef enn ekki fengið málefnalegar ástæður fyrir því að taka eigi dómarareynslu út eða skipan Hæstaréttar þó að hitt sé sett inn. Það er hægt að gera hvort tveggja. Ég fylgist með þessu þar til ég fæ málefnalegar niðurstöður. Ráðherra sjálfur vissi ekki hvers vegna þetta var gert, enda geri ég ekki ráð fyrir að hann hafi samið frumvarpið sjálfur. Einhver gerði það samt, þetta varð niðurstaðan og við verðum að fá málefnalegar ástæður fyrir því ef taka á út úr þessu ferli dómarareynslu og Hæstarétt. Það er hægt að halda því inni en setja fiskifræðilega reynslu inn að auki og Hafró. Það er ástæðan fyrir því að ég fylgist grannt með þessu og mun gera það áfram.