150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

bætur vegna ærumeiðinga.

278. mál
[12:42]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um bætur vegna ærumeiðinga en með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérstök lög um bætur vegna ærumeiðinga og samhliða því verði nánast öll ákvæði almennra hegningarlaga sem fjalla um ærumeiðingar felld á brott. Þá eru samhliða lagðar til breytingar á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála og fjölmiðlalögum. Frumvarpinu var dreift á Alþingi á 149. löggjafarþingi en ekki mælt fyrir því. Það er nú lagt fram að nýju með einni breytingu sem nánar verður gerð grein fyrir á eftir.

Um ærumeiðingar er fjallað í XXV. kafla almennra hegningarlaga sem hefur að miklu leyti staðið óbreyttur frá lögfestingu fyrir tæplega 80 árum síðan. Síðan þá hafa aftur á móti margvíslegar aðrar breytingar verið gerðar á löggjöf sem tengjast ærumeiðingum og tjáningarfrelsi sérstaklega og ber þar hæst tjáningarfrelsið í stjórnarskránni, 73. gr. frá árinu 1995, og lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu árið 1994 en í 10. gr. þess sáttmála er að finna ákvæði sem sérstaklega fjallar um tjáningarfrelsi. Fyrir tilstilli framangreindra mannréttindaákvæða, sem og dómaframkvæmda Hæstaréttar Íslands og Mannréttindadómstóls Evrópu, hefur tjáningarfrelsi verulega vaxið fiskur um hrygg síðustu áratugi. Er nú svo komið að sumum ákvæðum hegningarlaga verður vart beitt lengur samkvæmt orðanna hljóðan án þess að í því fælist óheimil skerðing tjáningarfrelsisins. Þannig er til að mynda ljóst að það að dæma einstakling í eins árs fangelsi fyrir móðgun myndi ekki standast framangreind tjáningarfrelsisákvæði. Þau ákvæði hegningarlaga sem fjalla um ærumeiðingar endurspegla því hvorki raunverulega réttarframkvæmd né nútímaviðhorf um tjáningarfrelsi og ærumeiðingar sem refsiverðan verknað.

Hæstv. forseti. Ég mun nú gera grein fyrir meginefni frumvarpsins en með því er lagt til að sett verði ný stofnlög þar sem mælt verði fyrir um einkaréttarleg úrræði til að bregðast við ærumeiðingum. Þar er gert ráð fyrir tvenns konar úrræðum, annars vegar miskabótum og hins vegar bótum fyrir fjártjón. Þannig verði heimilað að láta þann sem með saknæmum og ólögmætum hætti meiðir æru einstaklings með tjáningu sinni greiða miskabætur til þess sem misgert er við sem og bætur fyrir fjártjón ef því er að skipta. Við beitingu framangreindra úrræða verði höfð hliðsjón af sök, efni tjáningar og aðstæðum að öðru leyti. Þá er gert ráð fyrir að ekki komi til bótaábyrgðar við tilteknar aðstæður sem nánar eru taldar upp í 1. gr. frumvarpsins, til að mynda ef sýnt hefur verið fram á að ummæli séu sannleikanum samkvæm eða ef um er að ræða gildisdóm sem settur er fram í góðri trú og hefur einhverja stoð í staðreyndum. Þá er lagt til að æruvernd nái einungis til einstaklinga en ekki lögaðila auk þess sem nákomnum aðstandendum verði veittur kostur á að krefjast miskabóta. Auk þess verði ómerking ummæla sem úrræði vegna ærumeiðinga afnumin sem og núgildandi heimild til að dæma fjárhæð til að standa straum af kostnaði við birtingu dóms. Þá er rétt að vekja sérstaklega athygli á því að með frumvarpinu er lagt til að 1. mgr. 12. gr. laga um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið verði felld á brott en samkvæmt því ákvæði má enginn óvirða þjóðfánann, hvorki í orði né verki, að viðlögðu fangelsi í allt að eitt ár. Lögin standa óbreytt að öðru leyti.

En að lokum er rétt að gera grein fyrir því að ein breyting hefur verið gerð á frumvarpinu frá því að því var dreift á Alþingi á síðasta löggjafarþingi, eins og áður var nefnt. Ekki er lengur lögð til sú breyting að 95. gr. almennra hegningarlaga falli brott en í því ákvæði er fjallað um sérstaka æruvernd erlendra ríkja, þjóðhöfðingja, þjóðfána og fleira. Að nánar athuguðu máli og með hliðsjón af þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenska ríkisins þykir ekki rétt að leggja slíka breytingu fram að svo komnu máli heldur þarfnist hún sérstakrar athugunar. Má nefna í því sambandi að þrátt fyrir ýmsar breytingar á Norðurlöndunum er enn á hinum Norðurlöndum mælt fyrir um slíka æruvernd þó að hún sé mismikil. Breytingar eru ekki útilokaðar á þessu ákvæði og mun það hljóta nánari skoðun í ráðuneytinu, eftir atvikum í samvinnu við utanríkisráðuneytið.

Að þessu loknu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr. í þinginu.