150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

bætur vegna ærumeiðinga.

278. mál
[12:47]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Ég tel almennt séð að þetta frumvarp sé til bóta og hlakka til að sjá hvernig því reiðir af í gegnum þingið og allsherjar- og menntamálanefnd. Ég verð þó að lýsa yfir ákveðnum vonbrigðum með að hér sé ekki verið að breyta eða fella út 95. gr. almennra hegningarlaga, þó svo að ég hafi heyrt það sem hæstv. ráðherra sagði um að enn þá sé verið að skoða þá grein. Ég hef nokkrum sinnum flutt frumvarp þessa efnis að 95. gr. verði hreinlega felld út úr almennum hegningarlögum og er enn þá þeirrar skoðunar að hún eigi ekki heima þar en get alveg fallist á að hugsanlega þurfi að styrkja ákvæði sem varða vernd erlendra þjóðhöfðingja annars staðar í lagasafninu. Ég tel hins vegar að það sem varðar æruna eigi ekkert heima þar, að enga sérstaka vernd þurfi fyrir æru erlendra þjóðhöfðingja.

Það skýtur auðvitað svolítið skökku við að verði lögin samþykkt mun fáni Sameinuðu þjóðanna og fáni Evrópuráðsins njóta meiri verndar en þjóðfáni Íslands. Þetta er atriði sem mig langar að skoða og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún geti farið aðeins dýpra í það hvaða vinna sé í gangi við að koma 95. gr. annaðhvort alveg út eða uppfæra hana og gera hana meira í takt við nútímann.