150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

bætur vegna ærumeiðinga.

278. mál
[12:50]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum meira sammála en minna um þetta ákvæði. En það byggist kannski fyrst og fremst á Vínarsamningi um stjórnmálasamband sem við erum aðili að og réttarvenjum og gagnkvæmnisreglu þjóðaréttar. Þar er bæði kveðið á um persónulega friðhelgi sendierindreka og almennt um að koma í veg fyrir hvers konar tilræði við persónu hans sem þarf aðeins að skoða í tengslum við ærumeiðingarnar. En þar sem þau atriði eru ekki í þessu frumvarpi mun ég setja vinnu af stað til að finna út hvort við getum takmarkað það að einhverju leyti því að mögulega getum við gengið of langt og gætum farið aðeins styttra með það. Það er mikilvægt að þjóðréttarskuldbindingar Íslands séu virtar í hvívetna. Það er auðvitað á sama tíma litið til þess að þegar Noregur fór í sams konar breytingar var einnig hinkrað með þá breytingu og er þetta eina refsiákvæðið sem er eftir varðandi móðganir í garð fulltrúa erlendra ríkja. Síkt er líka í löggjöf Danmerkur og Svíþjóðar. En þetta þarf athugunar við og ég tek undir með hv. þingmanni með það og mun setja þá vinnu af stað í ráðuneytinu og í samstarfi við utanríkisráðuneytið.