150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

bætur vegna ærumeiðinga.

278. mál
[12:51]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég held að það sé alveg rétt að við séum frekar sammála um að hér þurfi að gera breytingar. En þetta snýst um útfærslu á þeim og ég fagna því að sú vinna sé komin í gang og tel hana afar brýna því að líkt og hæstv. ráðherra fór í gegnum hafa lönd verið að gera breytingar á ákvæðum sem snúa að því að tala megi ansi frjálslega um þjóðhöfðingja annarra ríkja en vilja auðvitað halda vernd á embætti þeirra, ef svo má segja. Ég tek undir mikilvægi þess. Ég tel hins vegar að 95. gr. eins og hún stendur núna sé ákaflega afkáraleg og vona að um leið og allsherjar- og menntamálanefnd fer að vinna með þetta frumvarp verði hægt að gera breytingar á henni, til að mynda þeim ákvæðum sem lúta að því hvernig megi koma fram við fána Sameinuðu þjóðanna eða Evrópuráðsins, bara til að það sé ekki ríkari vernd á þeim en þjóðfána Íslendinga, af því að ég er mjög fylgjandi þeim breytingum sem hér eru lagðar til hvað varðar fánann okkar. Um leið og ég lýsi yfir ákveðnum vonbrigðum með að ekki sé gengið lengra í sambandi við 95. gr. fagna ég því að verið sé að vinna í málinu í ráðuneytinu og vona að allsherjar- og menntamálanefnd geti tekið einhver skref varðandi þetta ákvæði.