150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

bætur vegna ærumeiðinga.

278. mál
[12:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp frá dómsmálaráðherra um bætur vegna ærumeiðinga og ég set svolítið spurningarmerki við það. Þegar um er að ræða ærumeiðingar eða brot gegn friðhelgi einkalífsins þurfa Íslendingar að leita til dómstóla. Fyrir tæpu ári síðan benti ég á að það væri ákveðin brotalöm í dómum Hæstaréttar þar sem hægt er að slá inn kennitölu, fá upp nafn, heimilisfang og persónuupplýsingar úr sjúkraskrám o.fl. Þetta er ekki í einu máli heldur mörgum. Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál og ærumeiðing fyrir ákveðna hópa sem geta þar af leiðandi, eins og segir sig sjálft, farið í dómsmál og krafist bóta vegna brota Hæstaréttar eða dómstóla. Ég veit ekki hvaða vinna hefur farið fram í þessu máli og spyr mig að því. Ég veit að ekki er búið að vinna málið að fullu. Það er nú þegar hægt að fara inn á dóma Hæstaréttar og fá þar kennitölur, t.d. mína eigin kennitölu, heimilisfang, sjúkraskrá, allar upplýsingar, réttar og rangar. Það er enginn sem getur skorið úr um hvað er rétt og hvað er rangt. Þetta er grafalvarlegt mál. Síðan er enn þá alvarlegra að þarna geta líka verið undir upplýsingar frá mönnum sem eru kallaðir til sem vitni fyrir dómi. Þess vegna segi ég að við verðum að vanda okkur og byrja þarna. Annars getur ríkið lent í miklum skaðabótum. Er ráðherrann sammála því?