150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[13:43]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem lagt er fram af öllum þingmönnum Samfylkingarinnar og Pírata. Málið var fyrst lagt fram á 145. löggjafarþingi, þá á 149. þingi og loks núna. Málið náði ekki fram að ganga og er nú flutt óbreytt. Málið ætti í sjálfu sér ekki að þurfa að kynna mikið hér á þingi og heldur ekki fyrir almenningi í landinu. Fá mál hafa byggt á jafn mikilli þátttöku almennings og verið rædd jafn mikið í þinginu. Ég ætla því ekki að fara nákvæmlega í einstakar greinar frumvarpsins, enda ekki tími til þess, en vel er gerð grein fyrir þeim, tilurð þeirra og tilgangi í frumvarpinu sjálfu.

Það er hins vegar óhjákvæmilegt að fara örstutt yfir sögu málsins, enda felast í þeirri aðferð sem var beitt sterk rök fyrir því að málið verði rætt ítarlega, tekið alvarlega af Alþingi og afgreitt í lok kjörtímabilsins. Vissulega eru breytingar á stjórnarskrá ræddar á vettvangi formanna allra flokka og því kann einhver að spyrja: Af hverju er verið að leggja þetta heildarplagg fram nú? Því er til að svara að sú leið sem þar er farin er langt frá því sem gefin voru fyrirheit um á sínum tíma og miklu frekar afleiðing þess málþófs sem þáverandi stjórnarandstöðuflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, stóðu fyrir á vormánuðum 2013. Málið náði, eins og áður sagði, ekki fram að ganga þá, kom ekki einu sinni til atkvæðagreiðslu. Í kjölfarið var vinna aftur tekin inn á borð formanna flokkanna, eins og áður sagði, án þess að það hafi skilað umtalsverðum árangri enn þá. Það gerðist ekkert kjörtímabilin 2016 og 2017 en fyrir frumkvæði núverandi hæstv. forsætisráðherra héldu formenn vinnunni áfram.

Í minnisblaði ráðherra við upphaf vinnunnar segir að stefnt skuli að heildarendurskoðun á tveimur kjörtímabilum og hafa skuli hliðsjón af þeirri miklu vinnu sem lögð hefur verið í endurskoðun á undanförnum árum, samanber t.d. þjóðfund, stjórnlaganefnd og stjórnlagaráð, auk starfa stjórnarskrárnefndar 2005–2007 og 2013–2016; líka þeirri „miklu samfélagslegu umræðu sem átt hefur sér stað, umræðu og nefndavinnu á Alþingi auk afstöðu kjósenda að því marki sem hún hefur þegar komið fram“ eins og segir í minnisblaðinu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Pírata eiga sæti í formannanefnd forsætisráðherra um endurskoðun stjórnarskrárinnar og hafa þar nýtt sína aðild til að halda á lofti frumvarpi stjórnlagaráðs. Það var skýrt hjá hæstv. forsætisráðherra að enginn í nefndinni hefur neitunarvald. Vinnan mun fara fram óháð því hvort einn eða fleiri fulltrúar segja sig frá henni, enda sé rúmur meiri hluti fyrir því að halda áfram. Því væri óráðlegt að segja skilið við þá vinnu en um leið er minnt á að þetta viðhorf hæstv. forsætisráðherra veikir rök þeirra sem segja að tillaga eins og sú sem hér er mælt fyrir sé slæm því að nauðsynlegt sé að algjör eða sem mestur samhljómur sé um jafn mikilvægt mál.

Vissulega hafa átt sér stað ágætisskoðanaskipti og samhljómur er um nokkur atriði í formannanefndinni en það er ljóst og ætti hvorki að vera feimnismál né undrunarefni að viðurkenna að mikill skoðanamunur er á viðhorfum flokkanna til einstakra ákvæða. Enn er langt í land með að aðilar geti lagt fram tillögu sem nokkuð breið og góð sátt er um. Við erum líka, eins og áður sagði, komin ansi langt frá þeirri vinnu og hugsun sem lá að baki því að þetta ferli fór af stað fyrir tíu árum.

Þá virðist skilningurinn á því að formannavinnan núna feli í sér heildarendurskoðun eitthvað hafa skolast til, enda bókaði formaður Sjálfstæðisflokksins 8. október að hann teldi ekki þörf fyrir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar heldur væri ráð að vinna áfram með helstu ákvæði um auðlindir, umhverfi, þjóðaratkvæði og framsalsákvæði. Hann bætti að vísu við að hann bæri samt virðingu fyrir því að menn sæju þetta með mismunandi hætti en teldi að hópurinn væri kominn á kaf í umræðu um atriði sem séu fyrir utan það sem hann telji þörf á að ræða. Formaður Miðflokksins tók undir innihald bókunarinnar á næsta fundi.

Heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar var samt það sem hæstv. forsætisráðherra lagði til grundvallar við upphaf vinnunnar og kynnti mjög vel fyrir formönnum. Ég mun áfram taka þátt í störfum nefndarinnar en þar höfum við hins vegar ekki dagskrárvaldið. Frumvarpið sem hér birtist er einfaldlega sú leið sem við vildum helst fara. Þá er líka bent á að þjóðin sé búin að greiða atkvæði og samþykkja að tillaga stjórnlagaráðs sem þetta frumvarp byggir á verði lögð til grundvallar heildarendurskoðun. Ég held þess vegna að það sé gott að fá þetta frumvarp inn á þing núna til umræðu í sal og á nefndarfundum, svo ekki sé talað um að fá inn umsagnir og gesti til nefndarinnar. Fæstir af þeim sem sitja hér nú gerðu það kjörtímabilið 2009–2013 og okkur er hollt að fara vel yfir þessa tillögu og greiða loks atkvæði um hana að yfirferð lokinni. Í dag, fjórum dögum eftir að sjö ár voru liðin frá afmæli þjóðaratkvæðagreiðslunnar, 20. október 2019, leggja Samfylkingin og Píratar því þetta frumvarp fram og leggja til að áfram verði haldið vinnu við setningu nýrrar stjórnarskrár þar sem frá var horfið vorið 2013.

Ég minni á að þjóðin er stjórnarskrárgjafinn. Þingmenn og leiðtogar þjóðarinnar verða og ættu a.m.k. að virða ákvörðun þeirra sem valdið hafa til að setja þeim leikreglur. Það er skylda kjörinna fulltrúa að leiða nýja stjórnarskrá í lög og virða þannig vilja þjóðarinnar í kosningum.

Við skulum þá vinda okkur aðeins í sögu málsins í mjög stuttu og brotakenndu máli. Árið 2010 lagði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur það til og fékk samþykkt á Alþingi að kosið yrði í almennum kosningum til sérstaks stjórnlagaþings sem ætlað var að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins. Stjórnlagaþingi var sérstaklega ætlað að taka til umfjöllunar undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar, skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra, hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins, sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds, ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan, lýðræðislega þátttöku almennings, framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála og einnig umhverfismál, þar á meðal eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda. Þrátt fyrir að þessir þættir skyldu koma til sérstakrar skoðunar var jafnframt kveðið á um að stjórnlagaþing ætti að geta fjallað um fleiri þætti.

Alþingi kaus auk þess sérstaka stjórnlaganefnd árið 2010 sem var ætlað að undirbúa og standa að þjóðfundi um stjórnarskrármálefni þar sem kallað yrði eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings um stjórnskipan landsins og stjórnarskrá og breytingar á henni. Stjórnlaganefnd skyldi vinna úr upplýsingum sem söfnuðust á þjóðfundinum og afhenda stjórnlagaþingi þegar það kæmi saman.

Þjóðfundur um stjórnarskrá Íslands var síðan haldinn í Laugardalshöll í Reykjavík laugardaginn 6. nóvember 2010. 950 manns af öllu landinu sóttu fundinn, fólk á aldrinum 18–91 árs. Kynjaskipting var nánast jöfn. Auk þess sáu um 200 aðstoðarmenn um framkvæmd fundarins. Með þjóðfundinum var ætlunin að fá fram meginsjónarmið og áherslur almennings varðandi stjórnskipan landsins og stjórnarskrá og breytingar á henni. Á fundinum ræddu fulltrúar um hugsjónir og gildi sem grundvöll nýrrar stjórnarskrár. Fram komu tillögur um inntak nýrrar stjórnarskrár. Fundurinn útbjó ábendingar, ráð og tilmæli til stjórnlagaþings, Alþingis, til fjölmiðla og annarra sem myndu halda áfram að fjalla um og ljúka vinnu við þessa nýju stjórnarskrá. 50 manna hópur vann með niðurstöðu fundarins og þær voru kynntar 7. nóvember 2010.

Kosningar til stjórnlagaþings fóru fram í kjölfarið, þann 27. nóvember 2010, og 522 einstaklingar buðu sig fram. Þetta var því flóknari kosning en Íslendingum er tamt og alls greiddi 83.531 kjósandi atkvæði í kosningum sem var u.þ.b. 36% kosningaþátttaka. Stjórnlagaþing endaði með ráðgefandi 25 manna stjórnlagaráði. Stjórnlagaráði var falið að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, í formi frumvarps til stjórnarskipunarlaga.

Stjórnlagaráð var formlega sett 6. apríl 2011 en við það tækifæri afhenti stjórnlaganefnd skýrslu sína. Í skýrslunni voru settir fram rökstuddir valkostir um breytingar á stjórnarskránni og fjallað um ýmis viðfangsefni sem koma þyrftu til skoðunar við þá vinnu. Eftir mikla vinnu, snarpa og frekar stutta, samþykkti stjórnlagaráð einróma frumvarp til stjórnarskipunarlaga og afhenti forseta Alþingis frumvarp sitt að nýrri stjórnarskrá 29. júlí 2011. Forsætisnefnd Alþingis lagði tillögur stjórnlagaráðs fyrir Alþingi í formi skýrslu 4. október 2011. Á tímabilinu frá 13. október 2011 til 20. febrúar 2012 voru tillögurnar og meðferð málsins ræddar á fundum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins. Fjölmargir aðilar sendu stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd umsagnir vegna málsins þar sem ýmist voru gerðar athugasemdir við efni frumvarpsins eða lýst stuðningi við að frumvarpið yrði lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Í kjölfar þess komu ýmsir sérfræðingar og ræddu um tillögur stjórnlagaráðs og svöruðu spurningum nefndarmanna. Þá voru fyrrverandi fulltrúar stjórnlagaráðs kvaddir saman til sérstaks fjögurra daga fundar og fór fundurinn fram 8.–11. mars árið 2012. Var fundinum ætlað að fjalla um spurningar og ábendingar nefndarinnar um hugsanlegar breytingar á frumvarpi ráðsins.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins fjallaði síðan um ýmis álitaefni og spurningar, t.d. varðandi auðlindaákvæðið, sér í lagi hugtakið fullt verð, um málskotsrétt forseta, hvort rétt væri að kosningakerfið væri bundið í stjórnarskrá og um hversu hátt hlutfall kosningarbærra Íslendinga gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu o.s.frv. Þann 20. mars 2012 lagði svo meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis fram tillögu til þingsályktunar um að haldin yrði ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Tillagan var endanlega samþykkt á þingfundi 24. maí árið 2012.

Eins og alþjóð veit og áður hefur komið fram var síðan haldin ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla þann 20. október árið 2012, fyrir sjö árum, eftir þetta langa ferli við endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Meira en 114.000 Íslendingar tóku þátt í þessari atkvæðagreiðslu og niðurstaðan var býsna skýr, þ.e. meiri hlutinn vildi að þetta plagg yrði lagt til grundvallar við gerð nýrrar stjórnarskrár. Í upphafi sumars 2012 skipaði Alþingi sérfræðinefnd til að fara lagatæknilega yfir tillögur stjórnlagaráðs og hún skilaði af sér frumvarpi þann 12. nóvember 2012. Nefndin tók mið af niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og ritaði einnig heildstæða greinargerð með frumvarpinu á grundvelli skýringa stjórnlagaráðs.

Á vorþingi 2013 áttu sér stað margar, langar, miklar og harðar umræður um frumvarpið sem einkenndust ekki síst af málþófi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem létu einskis ófreistað til að stöðva málið, eins og áður er talið — og það tókst þeim. Hér erum við þess vegna núna án þess að hafa staðið undir væntingum og loforði við þjóðina.

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að halda því til haga að stjórnarskrá er grundvallarplagg en kannski má segja að við séum að einhverju leyti enn að notast við hálfgert bráðabirgðaplagg. Við súpum stundum seyðið af því með ýmsu móti, eins og þekkt er, í óljósum heimildum, reglum og skorti á stjórnfestu. Það er algjörlega óþarft að hræðast þetta frumvarp. Ég gef ekki neitt fyrir áróðurinn um að hér sé verið að kollvarpa einhverju. Frumvarpið byggir á tillögum stjórnlagaráðs og er í rauninni aðeins endurskoðuð og uppfærð útgáfa af þeirri gömlu. Um 80% af gömlu stjórnarskránni er með einum eða öðrum hætti að finna í þeirri nýju auk þess sem hún inniheldur viðbætur til að færa íslensk lög inn í nútímann. Sem betur fer miðar mannkyninu talsvert áfram og því er nauðsynlegt að festa í sáttmálann ákvæði sem endurspeglar viðhorf og veruleika dagsins í dag. Það er meira að segja viðbúið að eitthvað hafi komið fram á allra síðustu árum sem krefjist þess að það komi viðbót við þetta frumvarp. Þá er það einfaldlega Alþingis að leiða það í ljós í meðförum þingsins og í samráði við almenning.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég því til að málinu verði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til frekari umræðu og loks til afgreiðslu í þingsal. Mig langar þó fyrst að lesa aðfaraorð nýju stjórnarskrárinnar, með leyfi forseta:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“