150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[14:02]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér er ekki verið að gera neina tilraun til að skrúfa tímann til baka. Það væri hins vegar æskilegt ef það væri hægt að ná Sjálfstæðisflokknum inn í samtímann. Ég nefndi það í ræðunni áðan að nefndin sem nú er að störfum er á forræði forsætisráðherra. Henni er stillt þannig upp að enginn einn flokkur hefur neitunarvald. Það væri því mjög óráðlegt af mér sem fulltrúa að taka ekki þátt í þeirri vinnu. Sú vinna er hins vegar langt frá því að vera í takti við það sem lagt var upp með og þjóðin hefur ákveðið með margvíslegum hætti. Þá bendi ég líka á að á minnisblaði sem forsætisráðherra lagði fram í upphafi vinnunnar var talað um heildstæða endurskoðun á stjórnarskrá á tveimur kjörtímabilum. Engu að síður ákvað formaður Sjálfstæðisflokksins að bóka að hann teldi ekki þörf á því. Það má spyrja sig að því hvaða heilindi eru þar.

Hvort hlutir séu umdeildir? Vissulega eru þessir hlutir umdeildir eins og aðrir og þeir eru umdeildir í formannavinnunni en hlutir fá ekkert sérstaklega stimpilinn umdeildir bara ef Sjálfstæðisflokkurinn leggst gegn þeim. Ég býst við því að það sé bara frekar ríkur meiri hluti þjóðarinnar sem telur að það þurfi að ganga ansi langt í breytingum á auðlindaákvæði, umhverfisákvæði, þjóðaratkvæðagreiðslu, framsalsákvæði, umfram það sem heyrist, m.a. á þessum fundum, að Sjálfstæðisflokkurinn sé til í. Hvort vinna formannanna sé óþörf fyrst þetta plagg er komið fram? Ja, ef hinir formennirnir segja: Já, við skulum vinna með þetta frumvarp, laga það til og bæta, þá held ég að það sé betra að við séum að vinna með heildstæða stjórnarskrá en að gera þetta með brotakenndum hætti eins og nú er.