150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[14:06]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki verið í meiri hluta og ég segi nú bara: Guði sé lof. En allt of lengi hefur þessi flokkur verið í þeirri stöðu og hagað sér með þeim hætti. Hann hefur haft völd langt út yfir það sem almenningur treystir honum fyrir. Ég held að það séu ákveðin vatnaskil núna þegar báðir vængir fálkans eru u.þ.b. að sljóvgast. Hann er að lækka flugið og við erum að horfa á hann sigla niður fyrir 20%. Ég held að við munum sjá það. Það eru breytingar.

Það er bara alrangt að verið sé að kollvarpa einhverri stjórnarskrá. Það er verið að gera orðalagsbreytingar. Það þýðir ekki nauðsynlega merkingarbreytingar. Það er verið að endurraða. Það er verið að setja hluti í samhengi. Að tala um heildstæða stjórnarskrá með þá stjórnarskrá sem við erum núna er svona svipað og tala þá um Sjálfstætt fólk og það vantar 7., 11., 13. og 25. kafla í bókina. Reyni menn að lesa hana sér til skemmtunar eftir það. Þannig að ég held að þetta sé mjög nauðsynleg vinna sem við erum að fara í. Mér væri það að meinalausu að vinna þetta inni á formannafundum ef farið væri eftir minnisblaði forsætisráðherra og allir einsettu sér að vinna að heildarendurskoðuninni og það væri verið að vinna í anda tillögu stjórnlagaráðs sem atkvæði voru greidd um í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki verið að gera það og því er þetta bara einfaldlega annar leikur sem við erum að tefla fram. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)