150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[14:08]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mig langar til þess að þakka hv. þm. Loga Einarssyni, 1. flutningsmanni frumvarpsins, fyrir ræðuna og fyrir að fara svona vel yfir söguna. En ég ætla samt sem áður að fara aftur aðeins yfir söguna því mér finnst það skipta máli upp á að setja þetta mikilvæga mál, sem er nýja stjórnarskráin, í samhengi. En ég ætla kannski ekki að fara jafn ítarlega í það.

Í kjölfar ákalls almennings um samfélagsbreytingar eftir hrun og þjóðfundarins 2009 sem fjallaði einmitt um þróun samfélagsins, þetta framtíðar Ísland sem var ákall eftir, setti Alþingi lög árið 2010 um stjórnlagaþing þar sem ákveðið var að kjósa ætti sérstakt stjórnlagaþing sem ætlað var að endurskoða stjórnarskrána. Með sömu lögum var sett á fót stjórnlaganefnd sem hélt annan þjóðfund árið 2010 þar sem fjallað var sérstaklega um nýju stjórnarskrána og endurskoðun hennar. Í raun var þetta visst áframhald samtalsins sem hófst 2009 enda ljóst að ný stjórnarskrá væri lykillinn að þeirri sameiginlegu framtíðarsýn sem varð til með þessu mikilvæga samtali. Úr stjórnlagaþingi varð til stjórnlagaráð sem vann frumvarp að nýrri stjórnarskrá og hvatti til þess að þjóðin yrði spurð álits með þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tók svo við málinu og fór þar fram mikil vinna, mikil vinna var lögð í þetta mál, þar sem brugðist var við málefnalegri gagnrýni sem hafði komið fram. Samkvæmt þingsályktun Alþingis fór fram, eftir þá vinnu sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kallaði eftir, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um nýju stjórnarskrána og var hún haldin 20. október 2012 þar sem tveir þriðju þeirra sem mættu á kjörstað sögðu að ný stjórnarskrá ætti að taka gildi á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs.

Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna voru ráðnir sérfræðingar til að fara yfir frumvarpið sumarið 2012. Sú nefnd gerði einhverjar breytingar og skrifaði heildstæða greinargerð á grundvelli skýringa stjórnlagaráðs. Málið var lagt fram á Alþingi í nóvember 2012 og var til umræðu þangað til í mars 2013. Meðan málið var til meðferðar Alþingis kallaði formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eftir áliti Feneyjanefndar, nefndar Evrópuráðsins um lýðræði með lögum. Nefndin gaf álit sitt á frumvarpinu og voru því gerð skil í framhaldsnefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en því fylgdu breytingartillögur sem uppfærðu frumvarpið í samræmi við athugasemdirnar sem komu þar. Það þarf að hafa í huga að þetta var síðasta löggjafarþingið fyrir kosningar 2013. Málið var tekið af dagskrá þegar meiri hlutinn stóð frammi fyrir málþófi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem leit út eins og það gæti tekið allan þann tíma sem eftir var af þinginu. Í raun og veru deyr málið þarna og er heldur ekki tekið upp almennilega, enda eru það þessir tveir flokkar sem taka við ríkisstjórnartaumum eftir kosningarnar 2013 og þá er málinu bara stungið ofan í skúffu.

Málið sem við leggjum fram núna, Samfylkingin og Píratar, felur í sér að frumvarpið sé lagt fram í þeirri mynd sem það var eftir vinnu stjórnlagaráðs, stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og Feneyjanefndar. Við tökum málið upp eins og það var skilið eftir eftir 2. umr. árið 2013 og leggjum það fram í þeirri von að nú, árið 2019, verði haldið áfram með málið með það að markmiði að ljúka þessu ferli svo að íslenska þjóðin fái loksins samfélagssáttmálann sem hún krafðist eða kallaði eftir eftir hrun, eftir tvo þjóðfundi og þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nýja stjórnarskráin endurskoðar alla mannréttindavernd á Íslandi, eflir og styrkir. Hún stendur mun betur vörð um réttindi borgaranna en gildandi stjórnarskrá. Hún kveður á um réttinn til lífs, rétt til að lifa með mannlegri reisn, bann við ómannúðlegri meðferð og vernd gegn ofbeldi. Persónufrelsi, friðhelgi einkalífs, tjáningarfrelsi og réttlát málsmeðferð eru allt borgararéttindi sem eru betur tryggð í nýju stjórnarskránni. En það er ekki það eina. Nýja stjórnarskráin færir nefnilega valdið til þjóðarinnar. Hún gefur þjóðinni vald til að grípa inn í þegar stjórnmálamenn misbeita valdi sínu. Þegar þingmenn og ráðherrar ætla að hlaupa af stað í einhverja vegferð í óþökk þjóðarinnar getur þjóðin stoppað þá af. 10% kjósenda geta kallað lög í þjóðaratkvæðagreiðslu með undirskriftalista og 2% kjósenda geta lagt fram sitt eigið þingmál og 10% geta lagt fram frumvarp sem verður að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu ásamt gagntillögu Alþingis.

Nýja stjórnarskráin tryggir líka betur gagnsæi í störfum stjórnvalda. Það er gríðarleg lýðræðisumbót sem ég skil ekki að nokkur maður geti sett sig gegn. Nýja stjórnarskráin setur umhverfisvernd í fyrsta sæti. III. kafli fjallar um samfélag og náttúru. Við fáum sérákvæði um náttúru Íslands og nýtingu náttúrugæða. Kveðið er á um virðingu og vernd náttúrunnar. Hún kveður á um sameiginlega og ævarandi eign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sem ekki eru í einkaeigu. Nýja stjórnarskráin afmarkar betur vald stjórnmálamanna, þingmanna og ráðherra. Hún er uppfærð miðað við núverandi raunveruleika. Hún tekur ekki mið af stjórnarskrá sem byggir á því að yfir Íslandi sé konungur. Nýja stjórnarskráin var skrifuð með aðkomu þjóðarinnar, bæði karla og kvenna. Gamla stjórnarskráin var skrifuð af dönskum körlum fyrir rúmri öld og hefur verið plástruð af og til. Nýja stjórnarskráin tekur mið af aðstæðum nútímans.

Forseti. Búsáhaldabyltingin var ákall um raunverulegar samfélagsbreytingar. Ríkisstjórnin féll, seðlabankastjóri vék og menningin breyttist að vissu leyti en krafan um nýja stjórnarskrá stendur eftir. Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn og krafan er skýr. Við sem leggjum þetta frumvarp fram erum að velja að virða vilja hennar og leggja til að Alþingi klári málið.