150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[14:16]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fer alltaf í talsverða varnarstöðu þegar menn nota í málflutningi sínum: Þjóðin kallar eftir, þjóðin vill. Nýleg könnun sýnir að þjóðin hefur engan áhuga á nýju stjórnarskránni, (Gripið fram í: Rangt.) bara engan áhuga og þykir sú gamla skárri ef eitthvað er. Það er enginn að kalla eftir þessu.

Ég ætla ekki að fara að halda ræðu. Ég ætlaði aðeins að spyrja einnar spurningar af því að því er haldið fram hér að þetta frumvarp byggist á því að inni í því séu breytingar frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, meiri hluta hennar væntanlega, og ábendingar Feneyjanefndarinnar. Ég spyr hv. þingmann: Eru allar aðvaranir og ábendingar Feneyjanefndarinnar þarna inni eins og þær voru? Ég fullyrði að svo er ekki. Ég get í sjálfu sér ekkert ætlast til þess að hv. þingmaður viti það en að mínu viti, þegar verið er að breyta stjórnarskrá, ætti ekki að gera það á þann hátt sem það var gert við þær aðstæður í samfélaginu þar sem þjóðin var í áfalli. Það sem stjórnmálamönnum datt í hug og eyddu orkunni í á þeim tíma, í þeim hremmingum, var að gjörbreyta stjórnskipan Íslands, koma með nýja stjórnarskrá sem í grunninn er samin á einu sumri. Þótt reynt hafi verið að tjasla upp á hana og taka tillit til nokkurra athugasemda var það ekki gert nema að hluta.

Ég segi einu sinni enn: Ég varð aldrei var við að þjóðin hefði kallað eftir þessu. Þjóðin hefur auðvitað áhuga á ýmsum breytingum og í þeim hefur verið unnið. Það er ekkert óeðlilegt að færa stjórnarskrána meira til nútímans en hún er og ég er ekki á móti neinum breytingum. Það má breyta fullt af atriðum í stjórnarskránni.