150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[14:22]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég ætla bara að þakka hv. þingmanni fyrir að koma hingað upp og tjá skoðanir sínar á skoðunum íslensku þjóðarinnar og sínar túlkanir á vilja þjóðarinnar, sínar tilfinningar varðandi nýja stjórnarskrá og allt það. Það er bara fínt en ég er í grunninn ósammála hv. þingmanni, enda held ég að við séum hugmyndafræðilega séð algjörlega á öndverðum meiði hvað það varðar. (BN: Það er rétt.) Það er rétt.

Ég er þó ánægð með að hv. þingmaður sé sammála því að það hafi ekki verið lýðræðislegt ferli sem fór í gang á þeim tíma sem við tókum við stjórnarskránni frá Dönum. Mér þykir stórfurðulegt að tala um að það þurfi að vera þverpólitísk sátt. Ég hefði talið að það skipti mestu máli að þjóðin kæmi að gerð nýrrar stjórnarskrár, að þjóðin sem stjórnarskrárgjafinn kæmi að þessari vinnu. Það er það sem skiptir í grunninn mestu máli. Hv. þingmaður hlýtur að geta fagnað því að nú kemur stjórnarskráin til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og hann getur þá komið sínum skoðunum á framfæri í þeirri vinnu sem þar mun fara fram.