150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[14:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að staldra við kannski tvö atriði í máli hv. þm. Guðmundar Andra Thorssonar. Í fyrsta lagi er það að stjórnarskrá er, eins og hann bendir réttilega á, mannanna verk. Tillögur til breytinga á stjórnarskrá eru líka mannanna verk og ekki hafnar yfir gagnrýni, geta sætt breytingum og þess háttar. Það á líka við um tillögur þess ágæta hóps sem kenndur hefur verið við stjórnlagaráð og þess vegna held ég að við hljótum öll að áskilja okkur rétt til þess að hafa hvaða skoðanir sem er á þeim tillögum sem þar komu fram.

Hv. þingmaður vísar til þess, eins og oft hefur verið gert í umræðum, að lýðveldisstjórnarskráin hafi verið hugsuð til bráðabirgða. Það er vissulega rétt að í umræðum á þingi og í samfélaginu um það leyti var gert ráð fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ýmsar atlögur hafa verið gerðar að því og reyndar er það nú svo að stjórnarskránni hefur verið breytt sennilega í einum sjö áföngum frá því að lýðveldisstjórnarskráin var tekin upp og meiri hluti núgildandi ákvæða stjórnarskrárinnar eru breytt frá 1944, bara þannig að það sé haft í huga. Við erum ekkert með sama plaggið og við vorum með 1944, hvað þá 1874, líkt og stundum er látið í veðri vaka. Jafnvel þó að grunnurinn sé sá sami hafa orðið verulegar breytingar. Ég segi fyrir mitt leyti og kannski fyrir hönd míns flokks að við höfum ávallt léð máls á því að það væri ástæða til að taka einstök ákvæði stjórnarskrárinnar fyrir og breyta þeim, einstaka kafla. Við höfum ekki hafnað því að bæta við nýjum köflum eða fella út ákvæði eins og hv. þingmaður nefndi um forsetann. Við höfum bara ekki talið ástæðu til að fara í þá allsherjarumritun og endurskoðun sem þetta ágæta stjórnlagaráð gerði ráð fyrir.