150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[14:39]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar sitt. Já, já, það var fólk sem var í stjórnlagaráði og þar með eru tillögur þess ráðs mannanna verk, það er alveg rétt. Stjórnlagaráð fór hins vegar eftir ákveðnu ferli í vinnu sinni. Það var kosið til stjórnlagaráðs eftir ákveðnum reglum og síðan eftir dóm Hæstaréttar veitti Alþingi fulltrúum í stjórnlagaráði mjög eindregið og skýrt umboð til starfa sinna, sem þetta fólk vann síðan eftir og vann af miklum heilindum. Ég verð að segja að mér hefur þótt stundum að vinna stjórnlagaráðs mætti vera okkur á hv. Alþingi til fyrirmyndar um það hvernig hægt er að vinna saman og hvernig hægt er að leiða saman ólík sjónarmið. Þeim tókst með undraverðum hætti að búa til þetta plagg sem síðan kemur inn í þingið og þingið tekur svo að vinna við eftir þeim reglum sem gilda um þau mál sem koma hingað inn. Það tókst að lenda því með vandaðri og mikilli vinnu þar sem ekki var síst horft til þess sem fræðimenn höfðu fram að færa. Voru margir gagnrýnir á ýmislegt í tillögum stjórnlagaráðs sem tekið var mið af í vinnu þingsins svo að úr varð þetta vandaða og góða plagg sem við í Samfylkingunni og Píratar höfum leyft okkur að leggja fram hér á ný.