150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[14:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var auðvitað mikil vinna sem átti sér stað á vettvangi þingsins á þessum tíma en hins vegar var henni ekki lokið. Þáverandi meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði að vísu fram tillögur sínar en það er ekki hægt að líta svo á að því ferli hafi með neinum hætti verið lokið. Ég sat í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á sínum tíma þegar þessi málsmeðferð átti sér stað og mótmæli þeirri fullyrðingu að tekið hafi verið mikið mark á álitum þeirra fræðimanna sem um þetta fjölluðu. Það var komið til móts við ákveðnar og tiltölulega þröngar lagatæknilegar athugasemdir um hluti sem ekki gengu upp í tillögum stjórnlagaráðs en að mínu áliti var harla lítið hlustað á alvarlegar athugasemdir sem komu fram af hálfu bæði stjórnlagafræðinga, stjórnmálafræðinga, Feneyjanefndarinnar og fleiri aðila sem um þetta fjölluðu meðan á málsmeðferð stóð.

Það er síðan önnur saga og rétt að halda því til haga að það voru öll, a.m.k. flest, skref sem stigin voru í þessu ferli á árunum 2007–2013 mjög umdeild, enda var verið að fara í ákveðna tilraunastarfsemi fram hjá hefðbundnum farvegi stjórnarskrárbreytinga, fram hjá þeim farvegi sem stjórnarskráin sjálf kveður á um og það ferli lenti oft úti á túni eða úti í skurði eins og stundum er talað um.

Tökum eitt lítið dæmi. Það er efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem svarið er já eða nei. Það er spurt: Eiga tillögur stjórnlagaráðs að liggja til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? Á þeim tíma þegar þessarar spurningar er spurt í þjóðaratkvæðagreiðslu liggja ekki fyrir tillögur (Forseti hringir.) t.d. sérfræðinganefndar sem þáverandi meiri hluti á Alþingi hafði sett til verka til að fara yfir tillögurnar. Þetta var allt í miðju ferli (Forseti hringir.) þegar svona spurningar er spurt. Sspurningin er sú, hv. þingmaður, hvort bara slík einföld atriði í málsmeðferð veiki ekki (Forseti hringir.) skuldbindingargildi niðurstöðu atkvæðagreiðslu af þessu tagi.