150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[14:43]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir andsvarið. Ég held að það sé alveg ljóst að við séum ekki alveg á einu máli um þetta en samt tekur flokkur þingmannsins, Sjálfstæðisflokkurinn, væntanlega og vonandi af heilum hug, þátt í þeirri vinnu sem hæstv. forsætisráðherra hefur komið af stað við endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Hv. þingmaður talaði um að það hefði verið farið — ég reyndi að hripa orðalagið niður hjá mér — fram hjá hefðbundnum farvegi stjórnarskrárbreytinga. Hann talaði um hefðbundinn farveg stjórnarskrárbreytinga og það held ég dálítið að sé kjarni málsins vegna þess að maður getur spurt: Hver var hefðbundinn farvegur stjórnarskrárbreytinga í íslenska lýðveldinu? Hann var sá að skipa nefndir sem hittust kannski einu sinni í mánuði og drukku kaffi, kannski heima hjá Gunnari Thoroddsen, og spjölluðu um stjórnarskrána og höfðu það notalegt og kannski býsnuðust dálítið yfir því að það væri ýmislegt sem þyrfti að lagfæra þegar betur stæði á (BÁ: Og skiluðu sér í slatta af stjórnarskrárbreytingum.) og skiluðu aldrei þeirri endurskoðun stjórnarskrárinnar sem ætlast var til að þeir skiluðu vegna þess að það var ævinlega skilningur þeirra sem tóku þátt í stofnun lýðveldisins Íslands að þessi gamla danska stjórnarskrá væri ekki sú stjórnarskrá sem íslenskt lýðveldi ætti að grundvallast á til langframa.