150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[14:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gengst auðvitað við því að hafa ásamt flokki mínum staðið gegn því að tillögur stjórnlagaráðs væru lagðar til grundvallar breytingum á stjórnarskrá. Hins vegar höfum við, eins og ég kom að í fyrra andsvari, verið þeirrar skoðunar að það væri eðlilegt að taka ákveðin atriði til endurskoðunar og bæta við nýmælum, m.a. um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur í tilteknum tilvikum. Það liggur fyrir að þegar stjórnarskráin mælir fyrir um að þjóðaratkvæðagreiðslur, að tilteknum forsendum uppfylltum, séu bindandi stendur slík niðurstaða. Þjóðaratkvæðagreiðslan 2012 var mjög gölluð að mínu mati og get ég bara vísað til umræðna sem áttu sér stað á Alþingi í aðdraganda þeirrar lagasetningar þar sem afstaða mín í þeim efnum kom mjög skýrlega fram, að ég teldi mjög einkennilegt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu með mál sem væri í miðju ferli, ekki komið að endapunkti, spurningarnar væru óljósar og ómarkvissar og fleira í þeim dúr. Það lá því alveg fyrir að það var andstaða við þessa þjóðaratkvæðagreiðslu.

Síðan má geta þess að þjóðaratkvæðagreiðslan vakti nú ekki meiri stemningu í samfélaginu á sínum tíma en svo að það náðist ekki helmingur atkvæðisbærra manna á kjörstað til að greiða atkvæði. Það var hin gríðarlega þunga krafa þjóðarinnar sem birtist í því, (Gripið fram í.) með sama hætti og þegar kosið var til stjórnlagaþings í kosningum sem seinna voru úrskurðaðar ólögmætar vegna galla á framkvæmdinni, það var rétt rúmur þriðjungur atkvæðisbærra manna sem mætti til þess að kjósa í þeirri atkvæðagreiðslu. Það voru næstum því fleiri í framboði en mættu til að kjósa.