150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[15:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er ekki svo að áhugi á því að gera heildarendurskoðun á stjórnarskránni hafi vaknað eftir hrun heldur var búið að reyna að fara í þá vegferð mörgum sinnum og með alls konar tilbrigðum. Að öðrum ólöstuðum held ég að Jóhanna Sigurðardóttir hafi sem þingmaður verið ötul við að reyna að koma slíkum breytingum á.

Herra forseti. Hér hefur verið farið yfir söguna og vinnuna að því plaggi sem við ræðum. Ég ætla líka að gera það vegna þess að hún er merkileg, þessi saga, og ég held að það sé mjög mikilvægt að við höfum hana á takteinum og höfum á hreinu hvernig plaggið sem við ræðum var undirbyggt og af hverju það er mikilvægt að klára vinnuna.

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir, sem þá var formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, mælti fyrir frumvarpi til laga um stjórnlagaþing árið 2010 sagði hún m.a. þetta, með leyfi forseta:

„Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um stjórnlagaþing sem lagt er fram í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Frumvarpið var lagt fram á 137. löggjafarþingi án þess að mælt væri fyrir því og er nú lagt fram að nýju án breytinga.

Frumvarpið felur í sér það nýmæli að sett verði á fót hér á landi stjórnlagaþing sem falið verði að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins. Frumvarpið var unnið í samráði við fulltrúa allra þingflokka.

Forsaga smíði þessa frumvarps er sú að á þarsíðasta löggjafarþingi lögðu þingmenn Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins fram frumvarp til breytinga á stjórnarskránni og því fylgdu drög að frumvarpi til laga um stjórnlagaþing. Frumvarpið til stjórnarskipunarlaga varð ekki útrætt. Þar sem ekki varð af þeim stjórnarskrárbreytingum sem þar voru ráðgerðar um stofnun stjórnlagaþings og að frumvarp þess efnis yrði lagt undir þjóðaratkvæði með bindandi niðurstöðu, er lagt til í frumvarpi þessu að stjórnlagaþingið verði ráðgefandi enda skortir heimild í stjórnarskrána til að fela stjórnlagaþingi bindandi ákvörðunarvald.“

Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram í umræðunni. Hvers vegna voru tillögur stjórnlagaráðs ráðgefandi en ekki bindandi? Það var einfaldlega af tæknilegum ástæðum, eins og Jóhanna lýsti svo ágætlega þegar hún mælti fyrir frumvarpi til laga um stjórnlagaþing.

Á grundvelli laga um stjórnlagaþing var í nóvember 2010 efnt til þjóðfundar tæplega 1.000 fulltrúa af landinu öllu sem valdir voru með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Þar voru fengin fram meginsjónarmið og áherslur almennings varðandi stjórnskipan landsins og breytingar á stjórnarskrá. Stjórnlaganefnd sem Alþingi kaus vann úr þeim upplýsingum sem þar komu fram og skilaði skýrslu um niðurstöður þjóðfundarins og hugmyndum um breytingar á stjórnarskrá. Síðar í sama mánuði var kosið til ráðgefandi stjórnlagaþings sem skyldi leggja fyrir Alþingi frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Ekki kom þó til þess að það yrði sett því að framkvæmd kosninganna var kærð. Hæstiréttur úrskurðaði þær ógildar í janúar 2011. Þess í stað skipaði Alþingi með þingsályktun, 24. mars 2011, 25 manna stjórnlagaráð til að gera tillögur um breytingar á stjórnarskránni.

Stjórnlagaráð samþykkti einróma frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem skilað var til forseta Alþingis í júlí 2011. Frumvarpið studdist m.a. við niðurstöður þjóðfundarins og tillögur frá stjórnlaganefnd og almenningi. Þar voru lagðar til margvíslegar réttarbætur, svo sem um náttúruvernd og þjóðareign á náttúruauðlindum, jafnt vægi atkvæða við kosningar til Alþingis og rétt almennings til að krefjast þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi samþykkir. Forsætisnefnd lagði tillögur stjórnlagaráðs fram á Alþingi í formi skýrslu í október 2011. Málið gekk til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem fjallaði ítarlega um málið næstu mánuði með aðkomu ýmissa sérfræðinga. Til samræmis við þingsályktun frá 22. febrúar 2012 fundaði stjórnlagaráð að nýju í mars 2012 til að fjalla um spurningar og tillögur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að mögulegum breytingum á frumvarpinu sem vörðuðu m.a. ákvæði um umhverfi og auðlindir, embætti forseta Íslands og þjóðaratkvæðagreiðslu. Ráðið afhenti nefndinni í kjölfarið svör sín með breytingartillögum.

Með þingsályktun 24. maí 2012 samþykkti Alþingi að tillögur stjórnlagaráðs skyldu bornar upp í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Auk þess skyldi spurt hvort í nýrri stjórnarskrá ætti að lýsa náttúruauðlindir, sem ekki væru í einkaeigu, þjóðareign, hvort þar ætti að vera ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi, hvort persónukjör í kosningum til Alþingis ætti að heimila í meira mæli en verið hefur, hvort þar ætti að vera ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vægju jafnt og hvort þar ætti að vera ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna gæti krafist þess að mál færu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram í október 2012. 116.069 manns greiddu atkvæði eða 49% fólks á kjörskrá. Ríflegur meiri hluti þeirra sem tóku afstöðu til þess, eða 66,9%, var hlynntur því að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Meiri hluti svaraði einnig hinum spurningunum játandi.

Hér hefur verið talað um að 49% kosningaþátttaka, að rúmlega 116.000 manns hefðu tekið þátt í kosningunni, hafi ekki verið nægileg. En það var þó svo að þeir sem vildu að auðlindirnar yrðu lýstar í þjóðareign í stjórnarskrá, þeir sem sögðu já við því, voru nægilega margir. Ef allir sem sátu heima hefðu sagt nei hefði ákvæðið samt sem áður verið samþykkt. Ég tala nú ekki um ef við myndum miða við kosningaþátttöku sem vanalega er við alþingiskosningar, þá er alveg augljóst mál að það var meiri hluti fyrir því að þetta ákvæði færi í stjórnarskrá.

Skrifstofa Alþingis réð að ósk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar nokkra sérfræðinga á sviði lögfræði til að skoða og fara lagatæknilega yfir tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Sérfræðihópurinn skilaði nefndinni tillögum að breytingum á frumvarpi stjórnlagaráðs í nóvember 2012. Í þeim fólst m.a. að kveðið var á um stöðu þjóðkirkjunnar til samræmis við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði í nóvember 2012 fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem byggði á frumvarpi til stjórnlagaráðs með breytingum samkvæmt tillögum sérfræðingahópsins. Málið gekk til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og lagði meiri hluti hennar til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Formaður nefndarinnar óskaði einnig eftir áliti nefndar Evrópuráðsins um lýðræði með lögum, svonefndri Feneyjanefnd, á frumvarpinu. Feneyjanefndin skilaði drögum að áliti í febrúar 2013 þar sem viðleitni Íslendinga til að bæta stjórnskipun Íslands var fagnað en gerðar athugasemdir við einstök ákvæði frumvarpsins. Þrátt fyrir mikla vinnu að málinu innan og utan þings tókst ekki að ljúka því fyrir þinglok 2013 og illu heilli var vinnunni ekki haldið áfram þaðan sem frá var horfið á kjörtímabilinu þar á eftir né þeim sem á eftir komu. Það eru svik við þjóðina, herra forseti.

Mér finnst mikilvægt og í samræmi við lýðræðisleg sjónarmið að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 með því að vinna áfram að breytingum á stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Eðlilegt er að halda áfram þaðan sem frá var horfið vorið 2013 og nýta þannig þá gífurlegu vinnu sem lögð hefur verið í endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það er ekki nægjanlegt, herra forseti, að mínu mati að Sjálfstæðisflokkurinn segist ekki vera hrifinn af þessum breytingum. Það er ekki nóg. Sjálfstæðisflokkurinn og hv. þingmenn þess flokks eru ekki með neitunarvald í þessu þingi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þannig er það. Það er von mín að þetta mál verði tekið fyrir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Hún er veik samt sem áður þar sem of sterk öfl vilja ekki breytingar á stjórnarskrá vegna þess að mér sýnist að það þjóni ekki hagsmunum þeirra. En það mun þjóna hagsmunum fólksins í landinu að gera það.