150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[15:12]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Með því frumvarpi sem hér er lagt fram af Samfylkingunni og Pírötum má strax halda áfram með það sem Vigdís Finnbogadóttir, okkar ástsæli forseti, útskýrði réttilega sem lýðræðislegasta starf að stjórnarskrárritun sem sagan kynni frá að greina.

Þjóðin hefur komið að gerð nýju stjórnarskrárinnar frá upphafi. Þjóðin mætti á þjóðfund 2010 og lagði til breytingar á stjórnarskránni. Þjóðin mætti á kjörstað sama ár og kaus sína fulltrúa á stjórnlagaþing. Þjóðin mætti síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 og kaus að grundvalla nýja stjórnarskrá á tillögum stjórnlagaráðs.

Ég var í hliðarherberginu með hv. þm. Birgi Ármannssyni og við fórum yfir það um hvað var nákvæmlega spurt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ég sagði: Það var kosið um að við ætluðum að fá nýja stjórnarskrá sem væri grundvölluð á frumvarpi stjórnlagaráðs. Þegar við fórum yfir það kom á daginn að það er nákvæmlega það sem spurt var um. Það er ekkert óljóst með það. Landsmenn voru spurðir hvort þeir vildu nýja stjórnarskrá sem yrði grundvölluð á frumvarpi stjórnlagaráðs. Tveir þriðju hlutar þeirra sem mættu á kjörstað sögðu já.

Í lýðræðislegum ríkjum er þjóðin stjórnarskrárgjafinn og íslenska þjóðin hefur ákveðið að gefa sjálfri sér nýja stjórnarskrá. Síðan hafa ríkisstjórnir Jóhönnu Sigurðardóttur, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar ekki getað eða viljað fara að vilja þjóðarinnar. Nú er boltinn hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Þetta frumvarp er það sem við í Samfylkingunni og Pírötum viljum að verði að nýrri stjórnarskrá eins og þjóðarviljinn segir. Við krefjumst þess að vilji kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 um nýju stjórnarskrána verði virtur. Við munum áfram leggja fram á Alþingi nýju stjórnarskrána sem inniheldur þá vinnu sem unnin var af þjóðinni og svo þinginu allt þangað til hún var sett ofan í skúffu 2013.

Ástæðan er einföld: Nýja stjórnarskráin stóreflir lýðræðið. Hún eflir rétt fólks til að taka þátt, til að hafa áhrif, til að draga ráðamenn til ábyrgðar. Og þörf er á. Svo eflir hún borgararéttindi okkar allra, tjáningarfrelsið, frelsi fólks til að taka við og miðla upplýsingum, rétt til aðgangs að internetinu, rétt til að fá upplýsingar frá stjórnvöldum, frelsi fjölmiðla, frelsi vísinda.

Það frumvarp sem við ræðum hér lögðu Píratar og Samfylkingin fram á síðasta þingi og leggja það fram aftur núna. Það verður lagt fram þegar ný ríkisstjórn tekur við að loknum kosningum sem verða líklega eftir eitt og hálft ár, vorið 2021. Þá er þetta frumvarp tilbúið og hægt að leggja það fram á fyrsta degi. Þá verður haldið áfram þaðan sem frá var horfið. Nýja stjórnarskráin er tilbúin fyrir ríkisstjórn sem er tilbúin að taka hana úr skúffunni, samþykkja hana á Alþingi og senda hana þjóðinni.