150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[15:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að koma inn á alla þá þætti sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni. Vafalaust verður einhvern tímann tækifæri til að koma inn á þá seinna. Það er eitt atriði hins vegar sem ég staldra við sem mér finnst ástæða til að bregðast við í máli hv. þingmanns og það lýtur að umfangi þeirra breytinga sem tillögur stjórnlagaráðs fela í sér. Það er rétt að með einhverjum hætti má segja að 80% af núverandi stjórnarskrá endurspeglist í ákvæðum tillagna stjórnlagaráðs en það er þó allt með þeim formerkjum að í mörgum tilvikum er verið að breyta orðalagi ákvæða, stundum umtalsvert. Þó að það sé verið að fjalla um sama viðfangsefni er verið að breyta orðalagi og framsetningu ákvæða og það eitt og sér getur kallað á viðameiri breytingar eins og fram kom í álitum mjög margra sem um þetta mál fjölluðu þegar það var til umfjöllunar í þinginu 2012–2013. Þá getur þetta valdið því að fordæmi raskast, venjubundin framkvæmd getur raskast, það getur orkað tvímælis hvort eldri fordæmi um túlkun viðkomandi ákvæða gilda o.s.frv. þannig að með því að fara þá leið sem stjórnlagaráð gerði, að umorða og breyta framsetningu ákvæða, jafnvel þó að verið væri að fjalla um sama viðfangsefni, getur það valdið því sem ég hef heyrt fræðimenn kalla merkingarusla, þ.e. þó að það hafi kannski ekki endilega verið ætlunin getur merkingin breyst (Forseti hringir.) og áhrif viðkomandi ákvæða geta breyst í framkvæmd með því að farið er að hræra til í orðalagi og þar með raska fordæmum.