150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[15:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa ábendingu því að þetta er mjög mikilvægt atriði. Það er bara í fína lagi, þannig vinnum við. Þegar við breytum lögum erum við væntanlega að breyta fordæmi líka. Það er ekkert óeðlilegt við það ferli. Það sem mér finnst vera lykilatriðið hérna og er ákveðin breyting í frumvarpi stjórnlagaráðs sérstaklega er að verið er að reyna að setja stjórnarskrána fram á mannamáli. Ég er ötull stuðningsmaður þess að stjórnarskráin sé ekki á lögfræðimáli. Það er vandamál lögfræðinnar að túlka hana síðan yfir á lögfræðimál og fordæmin sín. Ég ber virðingu fyrir því vandamáli en mér finnst það ekki það alvarlegt að það verði að sleppa því að hafa stjórnarskrána á mannamáli þegar allt kemur til alls.

Það er mjög eðlilegt þegar gerð er breyting á atriði sem er í núverandi ástandi vafaatriði og til ákveðin túlkun á í lögfræðilegum skilningi að við viljum útrýma þeim vafa og gera atriðið skiljanlegt á mannamáli. Ef það breytir síðan lögfræðilegri túlkun í kjölfarið er það ekki vandamál mannamálsins, stjórnarskrárinnar sem slíkrar. Það er meira vandamál hins vegar í því að um mörg ákvæði stjórnarskrárinnar er sá vafi að það er ekki fordæmi. Það hefur ekki myndast fordæmi og þegar fordæmi er tekið eins og t.d. forseti hefur gert veldur það usla og það sem breytingarnar snúast að mestu leyti um er einmitt að laga þau vafaatriði til að koma í veg fyrir það lagalega orð sem hv. þingmaður notaði um þetta þennan misskilning.