150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[15:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Orðið sem ég notaði er ekki lögfræðilegt hugtak heldur frekar heimspekilegt. Það er merkingarusli, þ.e. að með breytingunni sé verið að koma róti á merkingu hugtaka, orða og ákvæða sem hafa kannski fengið í langri framkvæmd eitthvert inntak, einhverja merkingu. Það er eiginlega hugmyndin sem ég er að reyna að koma orðum að í þessari umræðu.

Það að koma stjórnarskránni á mannamál er mjög huglægt og menn geta velt fyrir sér hvort tillögur stjórnlagaráðs eru á meira mannamáli en ýmis annar lagatexti sem við erum að vinna með. Það leiðir af sjálfu sér að þegar verið er að fjalla um hugtök sem í eðli sínu eru lögfræðileg eða stjórnskipuleg eða eitthvað skiptir máli að rétt hugtök séu notuð. Það skiptir líka máli í stjórnarskrá sem auðvitað hefur hlutverki að gegna sem grundvallarlög, sem grundvöllur annarrar lagasetningar, a.m.k. þarf merkingin að vera sæmilega skýr. Það sem ég held að sé mikilvægt að draga fram og var einmitt töluvert bent á í málsmeðferðinni á árunum 2012–2013 er að það kynni og það hefði ekki í raun verið metið með neinum hætti hvaða afleiddu áhrif yrðu af þeim breytingum sem verið var að leggja til þannig að menn lögðu í raun til breytingar á tilteknum ákvæðum án þess að hægt væri af einhverri skynsemi að segja fyrir um það (Forseti hringir.) hvaða áhrif breytingarnar hefðu.