150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[15:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, merkingarusli. Túlkun á milli tungumála, ég tel að við séum annars vegar með mannamál sem þróast, breytist með tíð og tíma og hins vegar lögfræðimálið. Ég skil þetta mjög vel því að í tölvunarfræðinni þaðan sem ég kem erum við með ýmislegt eins og fastayrðingar og viljum hafa hlutina mjög fasta yfir tíma sem slíka. En við glímum einmitt við það vandamál að mannamálið þróast og við þurfum að uppfæra þýðingarnar okkar reglulega. Lögfræðin hlýtur og verður að glíma við það vandamál líka því að við viljum væntanlega geta haft samskipti á hinu ónákvæma mannamáli þegar allt kemur til alls. Við erum ekki öll lögfræðingar, ekki geta allir verið lögfræðingar, ekki vilja allir vera lögfræðingar og það væri tvímælalaust hundleiðinlegt ef allir væru lögfræðingar. Við erum að glíma við að koma vilja okkar til skila með ónákvæmu tungumáli. Við reynum að vera eins nákvæm og við getum en það er erfitt sérstaklega með tíð og tíma þegar tungumálið breytist þannig að ég er einfaldlega mjög ósammála því að þetta valdi einhverjum merkingarusla því að alla jafna eru sem sagt orðalagsbreytingarnar sem verið er að gera til skýringar. Sú gagnrýni sem alla vega ég hef lesið um þennan merkingarusla o.s.frv. var ekki með neinum, alla vega ekki mörgum, haldbærum dæmum um það hvað nákvæmlega gæti valdið merkingarusla. Að því leyti til er ákveðinn strámaður inn í umræðuna frekar en uppbyggileg umræða eða gagnrýni á frumvarp stjórnlagaráðs og núverandi frumvarp eins og það liggur fyrir.