150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

stjórnarskipunarlög.

279. mál
[15:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera heiðarlega tilraun til að fara í taugarnar á öllum, líka stuðningsmönnum frumvarpsins, vegna þess að þótt ég sé vissulega mjög dyggur stuðningsmaður þessa frumvarps finnst mér samt vera kominn tími til þess að aðeins sé litið yfir fortíðina og því velt fyrir sér hvað virkar og hvað virkar ekki og draga smálærdóm af því hvernig þessi rökræða, ef rökræðu skal kalla, hefur verið iðkuð frá því að starfið hófst sem leiddi af sér það plagg sem við ræðum hér í dag.

Fyrst vil ég benda á nokkur atriði, t.d. það að oft er talað um að sátt þurfi að vera um stjórnarskrána. Ég er alveg sammála því að sem mest sátt eigi að vera um gildandi stjórnarskrá hverju sinni. Málið er bara að það er ekki sátt um gildandi stjórnarskrá og ef litið er til skoðanakannana eða þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 er ljóst að það er miklu meiri sátt um frumvarpið sem við ræðum hér en um gildandi stjórnarskrá. Ég get því verið sammála því, en það er ekki sátt um gildandi stjórnarskrá, og eðlilega ekki, samanber sögu hennar sem hefur verið rakin hér ábyggilega hundrað sinnum, ef ekki oftar. Mér þótti forvitnilegt að heyra sér í lagi virðulegan forseta, sem er einnig hv. 5. þm. Reykv. s., Brynjar Níelsson, tala hér áðan um að hann væri alveg til í að breyta stjórnarskránni, að það mætti breyta ýmsu í henni. Mér finnst það svo skringileg ummæli vegna þess að það er eins og það megi breyta henni svo lengi sem henni er ekki breytt samkvæmt þessu frumvarpi. Þarna fer ég inn á gagnrýni sem á líka svolítið við fylgjendur þessa frumvarps. Einhvern veginn í ósköpunum — ég held að það hafi gerst mjög snemma á vegferðinni — var þetta mál gert flokkspólitískt og sett upp þannig að það væri ein hlið í samfélaginu með því og önnur hlið á móti. Þetta fannst mér óþarfi. Ég held að ekki sé neinum einum um að kenna, þetta bara gerðist. Ég ætla að sleppa því að fara út í einhverjar umkenningar um það, mér finnst það ekki skipta máli. Það sem mér finnst skipta máli er efni frumvarpsins sjálfs. Ég er ekki hlynntur þessu frumvarpi vegna þess að hér hafi orðið hrun. Ég er búinn að kvarta undan því að okkur vanti nýja stjórnarskrá frá táningsaldri, nánar tiltekið frá því að ég byrjaði að lesa hana. Ég er ekki hlynntur nýju stjórnarskránni vegna þess að Sjálfstæðismenn hafi verið á móti henni eða vegna þess að Samfylkingin og Vinstri græn hafi komið fram með hana. Ég er bara hlynntur þessu plaggi vegna þess að ég hef lesið það. Ég hef lesið gildandi stjórnarskrá og með því að vinna á þingi hef ég lært ýmislegt um lögfræði og hvernig stjórnarskráin virkar og hvernig hún virkar ekki. Ég er hlynntur þessu frumvarpi vegna þess sem stendur í því. Meðal háværustu fylgjenda þessa frumvarps finnst mér persónulega allt of mikið talað um það og allt of miklu púðri eytt í það hvað Sjálfstæðisflokkurinn sé vondur, mikið farið í forsöguna og fortíðina sem skiptir máli en er búið að nefna rosalega oft og rosalega mikið. Mér finnst vanta að við tölum meira um efnið. Mér finnst það vanta frá öllum hliðum. Ég skil alveg af hverju þetta er svona. Ég held ekki að það sé góð staða.

Þegar kemur að efnislegri gagnrýni hef ég tekið eftir því að það virðist vera áberandi meira þekkingarleysi á efni frumvarpsins meðal þeirra sem eru á móti frumvarpinu en þeirra sem eru hlynntir því. Í pontu er ítrekað sagt eins og víðar að þarna sé einhvern veginn verið að rífa allt stjórnkerfið upp með rótum eða gera einhverjar grundvallarbreytingar. Svo er einfaldlega ekki, virðulegi forseti. Þarna er aðdáunarvert magn af umbótum, þörfum umbótum sumum og einnig æskilegum umbótum. En það er einfaldlega ekki rétt að þarna sé verið að breyta einhverju grundvallaratriði um stjórnskipan landsins. Þetta frumvarp er byggt á því sem hefur gengið vel á Íslandi. Því er bætt við sem að mínu mati myndi augljóslega láta hlutina ganga enn betur. Það er ekki róttækt, virðulegur forseti, það er bara hluti af því að samfélag okkar breytist með tímanum og á að þróast og stjórnskipanin þar með.

Ég held að ég sé ekki sérstakur aðdáandi þess að gera tíðar stjórnarskrárbreytingar, frekar en flestir aðrir. Æskilegra er að taka það fyrir, við ákveðin tilefni jafnvel eða alla vega þegar það hlýtur að vera augljóst að samfélagið hafi breyst mjög mikið frá setningu gildandi stjórnarskrár, og velta fyrir sér hver séu grunngildin sem við viljum að endurspeglist í stjórnarskrá, hvað hafi gengið vel og hvað illa, og sett ný stjórnarskrá til langs tíma með þeim breytingum sem fyrirséð er að séu við hæfi á þeim tíma. Það er þetta plagg, virðulegi forseti, þetta frumvarp.

Það var vel staðið að því hvernig þetta frumvarp varð til. En látum það liggja á milli hluta vegna þess að, eins og ég segi, ég styð ekki frumvarpið á þeim forsendum að það hafi verið gert svona eða hinsegin heldur vegna þess sem stendur í frumvarpinu sjálfu. Hafi andstæðingar einhverjar hugmyndir um orðalagsbreytingar skal ég hlusta á þær. Það er ekkert víst að ég verði sammála þeim, en ég skal alveg hlusta á þær og reyna að sannfæra almenning og aðra fylgjendur þessa frumvarps um að þær orðalagsbreytingar séu góðar ef ég tel þær góðar. Það er ekkert að því heldur, enda hefur fullt af slíku verið gert nú þegar.

Það er annað sem mig langar að nefna: Þetta eru ekki drög stjórnlagaráðs, þetta er frumvarp sem er unnið úr þeim drögum. Þau drög voru unnin úr fyrri vinnu, umræðu sem hefur átt sér stað áratugum saman, t.d. um beint lýðræði, auðlindaákvæði, náttúruvernd, ákvæði til framsals valds samkvæmt fyrirframgefnum formerkjum. Það er líka hluti af vinnunni við þetta, virðulegi forseti, þannig að það er bara ekki hægt að vera endalaust að hjakkast í orðalagi sem er löngu búið að breyta við meðferð málsins eftir að stjórnlagaráð skilaði sínum góðu drögum. Það minnir mig á annað sem varðar umræðu sem átti sér stað áður en ég tók til máls um lagatexta og mannamál. Í almennu tali er talað eins og þetta séu tvö algjörlega ólík tungumál. Það mætti kannski kalla þetta ólíkar mállýskur, það má vera, en það er ekkert því til fyrirstöðu í langflestum tilfellum, og sér í lagi þegar um er að ræða grundvallaratriði stjórnskipunarinnar sjálfrar, að hafa lagatexta á þokkalegu mannamáli, eins og það er kallað. Ég skil mætavel að skattalöggjöf geti ekki verið á mannamáli vegna þess að fólk er almennt ekki að hugsa og tala í hugtökum sem varða tæknilegar útfærslur á skatti en hér erum við að tala um sáttmála samfélagsins alls. Það er sjálfsagt að sá tiltekni lagatexti sé á þokkalegu mannamáli. Það er ekkert hrikalega mikið vandamál, virðulegi forseti. Hvað varðar lagatæknilegar skýringar á einstaka hugtökum er hægt að koma þeim fyrir í greinargerð. Ég tel nokkuð víst að það dugi til að skýra hugtök fyrir utan það að langflest hugtökin sem er að finna í þessu frumvarpi eru nú þegar í gildandi stjórnarskrá og eiga sér langa forsögu, bæði hjá dómstólum og í umræðu um stjórnskipanina almennt í gegnum tíðina, t.d. það að stjórnarfarið hér sé skilgreint sem þingræðisstjórn en ekki þingbundin stjórn.

Virðulegur forseti. Svona orðalagsbreyting er ekki eitthvert stórslys. Það er ekki eins og hér komi einhver flóðbylgja af lögsóknum og dómsmálum sem muni velta á þessu og kollvarpa einhverju. Þetta er bara ekki þannig, þetta eru einfaldlega ekki það róttækar breytingar. Helstu breytingarnar eru viðbætur, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fór yfir. Það er enginn ágreiningur um að hafa Alþingi. Það er enginn ágreiningur um að hafa þrískiptingu valdsins. Það er enginn ágreiningur um að dómstólar skuli vera dómstólar, að Alþingi skuli vera löggjafinn og að ríkisstjórnin skuli vera framkvæmdarvaldið. Það er sátt um þessa hluti og það er þannig í þessu frumvarpi. Helsti ásteytingarsteinninn þar er sennilega sá sem er það með réttu að mínu mati og það er forsetaembættið en það er eins og það er og er náttúrlega sérstakt á margan hátt, hér sem annars staðar.

Mig langar líka að fjalla aðeins um áhugaverða gagnrýni, eða öllu heldur óáhugaverða gagnrýni, sem ég hef heyrt frá öðrum hv. þingmanni í blöðum. Það er þegar ástandinu í Venesúela af öllum stöðum er líkt við stjórnarskrárferlið hér. Í fyrsta lagi er ferlið einfaldlega ekki það sama en ég ætla að reyna að láta það liggja á milli hluta. Í öðru lagi er efnið einfaldlega ekki það sama. Stjórnarskrá Venesúela er ein lengsta og flóknasta stjórnarskrá í heiminum upp á u.þ.b. 350 ákvæði. Ég man ekki í fljótu bragði hvað gildandi stjórnarskrá er, hún er minna en 100 ákvæði. Þetta frumvarp er 116 ákvæði. Norska stjórnarskráin er 121 ákvæði. Þýska er 146 og hún þykir með þeim betri. Ítalska er 139 og spænska 169. Það er ekki hægt að taka frumvarp stjórnlagaráðs, slengja því fram sem einhvers konar stjórnarskrárbreytingu og segja þar af leiðandi: Venesúela. Þetta er fráleitur málflutningur, virðulegi forseti, og hann ber þess merki sem mér finnst einkenna umræðu um þetta mál, að það er farið í allt nema efnið, nema í innihald frumvarpsins, þar sem tekið er á stjórnskipuninni, þrískiptingu valdsins, á jákvæðan hátt, gagnlegan hátt, tekist á við spurningu um það hver í ósköpunum eigi að bera ábyrgð í ríkisstjórninni. Eins og við þekkjum núna, ef það er einn ráðherrann á að fara til formanns þess flokks og hann bendir á forsætisráðherra sem bendir á formann þess flokks eða hvernig svo sem það er, það er bara eftir hentugleika í umræðunni hverju sinni ef það er þá einu sinni það skýrt. Þetta er skýrt í frumvarpi stjórnlagaráðs og skýrt í þessu frumvarpi. Það er gott og þannig á það að vera. Það á að vera sem skýrast. Það þarf ekkert að vera á einhverju óskiljanlegu svokölluðu lagamáli til að vera skýrt, það er alveg hægt að hafa hvort tveggja. Ég hef ekki enn þá rekist á neitt í þessu frumvarpi sem mér þætti erfitt að skilja sem óbreyttur borgari, kannski eitt og eitt hugtak sem ég þyrfti aðeins að glugga í greinargerð til að öðlast djúpan skilning á, en þá bara gluggar maður í greinargerð til að öðlast djúpan skilning á því. Flóknara er það ekki. Ég treysti dómurum landsins alveg til að vera þess megnugir að kíkja í lögskýringargögn af og til þótt vissulega hafi mátt gera athugasemdir við reynsluna í þeim efnum af og til.

Ég vildi óska þess að við ræddum þetta með opnari huga. Mér finnst að það mætti hlusta og sýna meiri vilja til að hlusta á gagnrýni. Mér finnst að gagnrýnin ætti að vera efnislegri. Þetta mál, hvort sem okkur líkar betur eða verr, ber nefnilega með sér mjög sterkar tilfinningar úr hruninu þar sem voru tilfinningar, fólk sem vildi breyta öllu og fólk sem vildi einmitt halda í sem mest vegna þess að það sá samfélag sitt hrynja. Það vildi halda í stjórnarskrána þótt ekki væri annað. Ég skil það, ég deili ekki þeirri sýn á málið en ég skil hana og tel mig þá vera að enduróma það sem sumir andstæðingar þessa máls hafa sagt, að stjórnarskráin hafi verið meira eða minna það eina sem hélt í hruninu.

En aftur vil ég segja að ég er ekki hlynntur þessu frumvarpi út af hruninu. Ég er ekki hlynntur því út af því að það voru einhverjir meintir vondir bankakallar að gera hitt eða þetta. Ég er ekki einu sinni hlynntur þessu frumvarpi út af vitleysisganginum sem viðgekkst hér fyrir hrun hvað varðar stjórnsýslu og ábyrgðarleysi almennt í íslensku samfélagi, heldur vegna þess að ég las frumvarpið sjálft. Ég las gildandi stjórnarskrá og fyrir mér er augljóst hvort er betra.

Við þekkjum öll forsöguna að því hvernig gildandi stjórnarskrá kom til, a.m.k. sögu hennar í öllum meginatriðum, það hefur aðeins verið rætt hér í dag. Mig langar til að biðja hv. þingmenn sem eru á móti þessu frumvarpi að gefa því séns, ræða það efnislega, koma kannski í ræðu, taka fram hvað það er efnislega sem þeir hafa athugasemdir við og koma með tillögur að úrbótum, þótt ekki væri nema bara upp á gamanið, virðulegur forseti, vegna þess að ég held að jafnvel íhaldssömustu hv. þingmenn, sem vilja hafa hlutina eins og þeir eru, ættu að geta haft pínulítið gaman af umræðu um það þar sem þeir útskýra hvers vegna hlutirnir eigi að vera eins og þeir eru. Það er jákvætt að allir séu á sömu blaðsíðu með það hvernig sem það er. Mér þykir afskaplega vont hvernig þetta mál fær mikla athygli út frá öðrum hlutum en efni frumvarpsins sjálfs. Mér þætti rosalega vænt um það ef hægt væri að einblína svolítið á efnið, takast á um það eflaust. Það er allt í lagi að vera ósammála. Það má, það er bara þannig. Það þarf enginn að leyfa það, það er bara þannig hér og nú sem annars staðar og á öðrum tímum. En þá ættum við líka að finna okkur einhvern sameiginlegan farveg um það hvernig ætti að koma að því.

Hvað varðar eitt sem hv. 8. þm. Reykv. n., Birgir Ármannsson, nefndi áðan, hvað varðar ferlið í stjórnarskrárbreytingum, er náttúrlega bara ein leið í dag til að breyta stjórnarskrá og hún er sú að þingið samþykki breytingar og að loknum nýjum alþingiskosningum samþykki nýtt þing, Alþingi, sömu breytingar. Eitt sem væri hægt að gera og ég held að ætti að vera samstaða um er að setja í gildistökuákvæði að það þurfi líka að fara í gegnum bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar með er lýðræðislega umboðið komið sem væri þá skýrt og eftir það myndu flokkar fara pólitískt bundnir, myndi ég segja, til starfa vitandi það að almenningur hefði í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu samþykkt nýja stjórnarskrá. Það er hægt að gera svona hluti, það er engin ástæða til að gera þetta ekki. Tilefnið er ærið. Frumvarpið er gott. Ég vildi óska þess að við gætum rökrætt aðeins meira um það sem (Forseti hringir.) skiptir máli hvað varðar stjórnarskrána sem er innihald hennar.